[sam_zone id=1]

Oddahrina hjá drengjunum

Íslensku drengirnir mættu Noregi í morgunsárið í hörkuleik á NEVZA U19.

Drengjaliðið hóf daginn snemma í Finnlandi og mætti Noregi klukkan 10 á staðartíma. Íslensku drengirnir fóru hægt af stað og fundu ekki taktinn í byrjun leiks. Noregur vann fyrstu hrinuna 25-13 og aðra hrinu unnu þeir 25-19. Þá hrökk íslenska liðið í gang og voru þeir mun betra liðið í þriðju hrinunni. Hana unnu þeir 17-25 og var allt annað að sjá til liðsins en í upphafi leiksins.

Fjórða hrinan var einnig öflug hjá íslensku drengjunum en hún var hins vegar mun jafnari en fyrri hrinur leiksins. Hvorugt lið náði að stinga af en það var íslenska liðið sem lék betur undir lokin og vann hrinuna 23-25. Leikurinn fór því í oddahrinu þar sem íslenska liðið var skrefi á eftir þeim norsku frá upphafi. Hrinan var þó afar jöfn en að lokum vann Noregur 15-11 sigur og vann leikinn þar með 3-2.

Ísland mætir því tapliði úr leik Svíþjóðar og Færeyja á morgun en þar verður leikið um 5.-6. sæti mótsins. Svíþjóð hefur 2-0 forystu þegar þetta er skrifað og verður að teljast líklegt að Færeyjar verði andstæðingur íslensku drengjanna á morgun. Sá leikur hefst klukkan 8:00 á íslenskum tíma.

Nú er komið að stúlknaliðinu sem mætir Danmörku og má sjá beina útsendingu frá leiknum með því að smella hér.