[sam_zone id=1]

Oddahrina á Ísafirði

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í dag en í báðum tilvikum var að ræða seinni leiki helgarinnar í tvíhöfðum.

Í Neskaupstað tók Þróttur Fjarðabyggð á móti Þrótti Vogum en heimamenn unnu 3-1 sigur í leik gærdagsins. Þróttur Fjarðabyggð var fyrirfram talið sterkara liðið en gestirnir úr Vogum náðu þó að vinna aðra hrinu sína á þessu tímabili. Á Ísafirði mættust Vestri og KA en í gær vann Vestri 3-1 sigur með nokkuð sannfærandi hætti. Það var því fróðlegt að sjá hvort heimaliðin gætu náð í annan sigur í dag.

Þróttur Fjarðabyggð – Þróttur Vogum

Jafnræði var með liðunum í fyrstu hrinunni í dag en liðin skiptust á að hafa forystuna framan af hrinu. Heimamenn virtust vera að sigla þægilegum sigri heim en unnu nauman 25-22 sigur eftir góðan lokakafla hjá Þrótti Vogum. Önnur hrinan byrjaði frábærlega fyrir Þrótt Fjarðabyggð en forystan náði tveggja stafa tölu um miðja hrinu. Þeir gáfu þó eftir, Þróttur Vogum nýtti sér það og minnkaði muninn í aðeins tvö stig. Nær komust þeir ekki og Þróttur F vann aðra hrinu 25-19.

Gestirnir byrjuðu vel í þriðju hrinunni en fljótlega tók Þróttur F forystuna og var hún fljótlega orðin ansi mikil. Þróttur F vann hrinuna 25-17 og leikinn þar með 3-0. Andri Snær Sigurjónsson var stigahæstur í liði Þróttar F með 12 stig en næstir komu Miguel Angel Ramos Melero og Ramses Ballesteros með 8 stig hvor. Hjá Þrótti Vogum var Damian Moszyk stigahæstur með 12 stig og Roberto Guarino bætti við 7 stigum.

Heimamenn fengu sex stig af sex mögulegum um helgina og eru nú í 2. sæti deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki. Hamar er í 3. sætinu með 12 stig en hefur aðeins spilað fjóra leiki. Þróttur Vogum er á botni deildarinnar án stiga.

Vestri – KA

KA byrjaði seinni leik helgarinnar afar vel og náði fimm stiga forystu í fyrstu hrinu sem dugði þó skammt. Sex stig í röð frá Vestra gáfu þeim forystuna í örstutta stund en KA var skrefi á undan eftir það. Öflugur lokakafli tryggði Vestra hins vegar 25-22 sigur í hrinunni og leiddu þeir því 1-0.

Eftir jafna byrjun í annarri hrinu náði KA flottum kafla og stakk nánast af um miðja hrinuna. Þær héldu um það bil fimm stiga forskoti út hrinuna og unnu hana 20-25. Svipaða sögu var að segja í þriðju hrinu en þar náði forysta KA mest átta stigum. Vestri gerði þó vel og náði að minnka muninn niður í eitt stig undir lok hrinu en það dugði ekki til. KA var sterkari aðilinn undir lokin og vann 22-25. KA leiddi því leikinn 1-2 og gat náð í þrjú stig með sigri í fjórðu hrinu.

Það gekk þó ekki upp en Vestri tók öll völd snemma í fjórðu hrinunni. Heimamenn unnu auðveldan 25-15 sigur og fór leikurinn því í oddahrinu. Það voru gestirnir frá Akureyri sem leiddu oddahrinuna nánast algjörlega frá upphafi og unnu hana 11-15. KA vann leikinn því 2-3 og fær tvö stig fyrir sigurinn. Um helgina fékk Vestri því fjögur stig úr leikjunum tveimur en KA tvö stig.

KA er nú með sjö stig í 4. sæti deildarinnar en Vestri í 6. sætinu með fjögur stig. KA hefur spilað fimm leiki en Vestri sex leiki.