[sam_zone id=1]

NEVZA U19 – Dagur 3

Lokadagur Norðurlandamóts U-19 landsliða fór fram í dag en íslensku liðin mættu Englandi í morgun.

Karla- og kvennalið Íslands léku um 5.-7. sæti mótsins og mættu bæði liðin Englandi í morgun. Strákarnir höfðu unnið Færeyjar 3-1 í gær en stelpurnar töpuðu sínum leik gegn Færeyjum 3-1.

Strákarnir hófu leik og í fyrstu hrinu voru Englendingar fljótlega komnir með forystuna. Þeir höfðu yfirhöndina alla hrinuna og unnu 25-19. Íslandi gekk þó betur í annarri hrinu og nú voru það þeir sem höfðu yfirhöndina. England náði að jafna 23-23, í fyrsta sinn frá því að staðan hafði verið 5-5 í byrjun hrinunnar. Ísland þraukaði þó og vann hrinuna 26-28.

Jafnt var til að byrja með í þriðju hrinu en hún þróaðist eins og sú fyrsta og England vann 25-19. Aftur komu íslensku strákarnir sterkir til baka og leiddu alla fjórðu hrinu. Hana unnu þeir 20-25 og tryggðu sér því oddahrinu. Fimmta hrinan var æsispennandi en að lokum náði Ísland að kreista fram 17-19 sigur og vann leikinn þar með 2-3.

Stelpurnar mættu einnig liði Englands og var fyrsta hrina frábær skemmtun. England hafði forystuna stærstan hluta hrinunnar fyrir utan góðan kafla Íslands um miðja hrinu þar sem að Ísland hafði mest þriggja stiga forystu. Eftir mikla spennu vann England hrinuna 26-28 og leiddi 0-1. Önnur hrina byrjaði nokkuð vel en Englendingar komust svo á mikið skrið og unnu hrinuna sannfærandi, 14-25.

Ísland réði ríkjum í þriðju hrinunni og leiddi alveg frá upphafi. Ísland vann hrinuna örugglega, 18-25, og minnkaði muninn í 1-2. Fjórða hrinan var jöfn til að byrja með en um miðja hrinu hafði Ísland 16-11 forystu. England minnkaði muninn smám saman en Ísland hafði þó 23-20 forystu undir lokin. Þá kom góður kafli hjá enska liðinu sem skoraði síðustu 5 stigin og vann hrinuna 23-25. England vann leikinn því 1-3 eftir þennan ótrúlega lokakafla.

Strákarnir ljúka keppni í 5. sæti mótsins eftir sigra á Englandi og Færeyjum. Stelpurnar enda í 7. sæti eftir tvo hörkuleiki við Færeyjar og England í umspilinu. Finnsku liðin voru öflug og unnu bæði til gullverðlauna. Sævar Már og Árni Jón, sem dæmdu á mótinu fyrir hönd Íslands, stóðu einnig í ströngu þessa helgina. Árni dæmdi 5 leiki og Sævar 6 leiki, þar á meðal úrslitaleik kvenna.

Úrslit dagsins – Sunnudagur

Drengir

England 2-3 Ísland (25-19, 26-28, 25-19, 20-25, 17-19). Galdur Máni Davíðsson var enn og aftur öflugur hjá Íslandi og skoraði 17 stig en næstur kom Þórarinn Örn Jónsson með 15 stig. Valens Torfi Ingimundarson skoraði 12 stig og Elvar Örn Halldórsson skoraði 10 stig. Benjamin Lucas var stigahæstur allra með 29 stig fyrir England.

Stúlkur

Ísland 1-3 England (26-28, 14-25, 25-18, 23-25). Sara Ósk Stefánsdóttir var stigahæst í liði Íslands með 12 stig en Matthildur Einarsdóttir skoraði 10 stig. Eldey Hrafnsdóttir bætti við 9 stigum og Amelía Rún Jónsdóttir skoraði 7 stig. Niamh Davies skoraði 19 stig fyrir England.

Hópurinn hefur nú kvöldið til að jafna sig á átökum helgarinnar og haldið verður heim á leið í fyrramálið. Áætlað er að hópurinn lendi í Keflavík 15:45 og þaðan verður haldið í Laugardal með rútu.