[sam_zone id=1]

NEVZA U19 – Dagur 2

Annar keppnisdagur Norðurlandamóts U-19 landsliða fór fram í dag með alls 12 leikjum.

Íslensku drengirnir hófu leik gegn Englandi þar sem barist var um 3. sæti A-riðils. Þar sem að úrslitin voru ekki aðalatriði fengu þeir leikmenn að spreyta sig sem höfðu spilað minna en aðrir og langflestir leikmenn liðsins tóku þátt í leiknum. Hann tapaðist 3-0 þrátt fyrir fínt spil í seinni tveimur hrinunum.

Seinni leikur dagsins hjá strákunum var gegn Færeyjum. Sá leikur var hluti lokariðils þar sem keppt er um 5.-7. sæti mótsins. Fyrsta hrina var æsispennandi en íslensku strákarnir voru sterkari undir lokin og unnu hrinuna 25-23. Færeyska liðið lék mun betur í næstu hrinu og vann 17-25 en aftur unnu Íslendingar í þriðju hrinu, 25-21, eftir spennandi leik.

Í fjórðu hrinunni áttu færeysku strákarnir ekki möguleika og Ísland hafði örugga forystu alla hrinuna. Færeyjar skoruðu nokkur stig undir lok hrinunnar en það ógnaði ekki forystunni og Ísland vann hrinuna 25-19. Ísland vann leikinn því 3-1 og stendur vel að vígi fyrir morgundaginn.

Stúlkurnar léku aðeins einn leik í dag og hafði fyrri hluta dagsins til að undirbúa sig fyrir hann. Eins og strákarnir þá mættu þær Færeyjum og börðust um 5.-7. sæti mótsins. Eftir jafnræði í upphafi fyrstu hrinu tóku stelpurnar öll völd á vellinum og unnu fyrstu hrinu sannfærandi, 17-25. Önnur hrina var jöfn og spennandi en þær færeysku unnu hana 25-22.

Færeyska liðið hafði forystuna stærstan hluta þriðju hrinu en íslensku stelpurnar voru þó ekki langt undan og jöfnuðu 16-16. Þá komust færeysku stelpurnar aftur á skrið og unnu hrinuna 25-20. Nokkuð jafnt var í fjórðu hrinu en í seinni hluta hennar var færeyska liðið sterkara og vann 25-17. Færeyjar unnu leikinn því 3-1 en næst mætir Ísland liði Englands á morgun.

Úrslit dagsins – Laugardagur

Drengir

England 3-0 Ísland (25-12, 25-21, 25-21). Markús Ingi Matthíasson var stigahæstur Íslendinga með 7 stig og Elvar Örn Halldórsson bætti við 5 stigum. Benjamin Lucas skoraði 14 stig fyrir England.

Ísland 3-1 Færeyjar (25-23, 17-25, 25-21, 25-19). Galdur Máni Davíðsson var stigahæstur í liði Íslands með 16 stig og skammt á eftir honum kom Þórarinn Örn Jónsson með 15 stig. Valens Torfi Ingimundarson og Elvar Örn Halldórsson skoruðu 11 stig hvor. Dávið Hentze var stigahæstur allra með 20 stig.

Stúlkur

Færeyjar 3-1 Ísland (17-25, 25-22, 25-20, 25-17). Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst allra á vellinum með 17 stig en Sara Ósk Stefánsdóttir skoraði 8 stig og Matthildur Einarsdóttir bætti við 7 stigum. Zoe Dickson og Eva Gunn Niclasen skoruðu 7 stig hvor fyrir Færeyjar.

Leikir morgundagsins

Drengir

7:00 England – Ísland

Stúlkur

9:00 Ísland – England

Eins og sjá má fara leikir Íslands fram snemma í fyrramálið þar sem að síðustu leikir mótsins verða úrslitaleikirnir. Úrslitaleikir karla og kvenna fara fram á sama tíma og hefjast báðir klukkan 13:00.