[sam_zone id=1]

NEVZA U19 – Dagur 1

Fyrsti keppnisdagur Norðurlandamóts U-19 landsliða var í dag og léku karla- og kvennalið Íslands tvo leiki hvort.

Drengirnir mættu Finnlandi í fyrsta leik og það kom fljótt í ljós að Finnarnir voru betra liðið á vellinum. Undanfarin ár hefur Finnland ekki alltaf sent lið til leiks en eru greinilega með gríðarsterkt lið á heimavelli. Finnland vann leikinn 3-0 og næst var komið að leik gegn Danmörku.

Eftir brösuga byrjun batnaði leikur Íslands til muna og unnu þeir fyrstu hrinuna 25-19 og þá næstu 25-16. Danir komu þá til baka og unnu þriðju og fjórðu hrinuna svo að úrslitin réðust í oddahrinu. Oddahrinan var æsispennandi en lauk með 16-18 sigri Danmerkur sem vann leikinn 2-3.

Stelpurnar hófu leik gegn liði Svíþjóðar og reyndist sá leikur mjög erfiður, líkt og fyrsti leikur drengjanna. Þær sænsku voru fljótar að ná forystu í fyrstu hrinu og unnu hana örugglega en íslensku stelpurnar héldu mun betur í við sænska liðið í annarri hrinu. Þrátt fyrir fína byrjun í þeirri þriðju tók Svíþjóð fljótt fram úr og vann 3-0 sigur.

Seinni leikur dagsins var gegn liði Noregs. Ísland byrjaði leikinn frábærlega og komst 0-6 yfir en það dugði þó skammt. Norsku stelpurnar jöfnuðu 7-7 og unnu hrinuna 25-18. Önnur hrina var mjög jöfn en tapaðist einnig. Þriðja hrinan var hins vegar eign íslensku stúlknanna sem höfðu forystuna alla hrinuna, að undanskildum nokkrum stigum í upphafi hrinunnar.

Í fjórðu hrinunni náði Noregur fljótlega yfirhöndinni en íslensku stúlkurnar gáfust ekki upp. Eftir nokkuð sveiflukennda hrinu náðu þær norsku að klára hrinuna 25-21 og unnu leikinn þar með 3-1. Ísland endar því í þriðja og neðsta sæti B-riðils og leikur um 5.-7. sæti mótsins næstu tvo daga.

Úrslit dagsins

Drengir

Finnland 3-0 Ísland (25-13, 25-18, 25-17). Valens Torfi Ingimundarson skoraði 11 stig fyrir Ísland og Þórarinn Örn Jónsson skoraði 6 stig. Matias Tihumaki var stigahæsti maður vallarins og skoraði 16 stig fyrir Finnland.

Ísland 2-3 Danmörk (25-19, 25-16, 18-25, 18-25, 16-18). Galdur Máni Davíðsson var stigahæstur í liði Íslands með 16 stig, Þórarinn Örn skoraði 13 stig og Elvar Örn Halldórsson bætti við 12 stigum. Kalle Madsen var stigahæstur allra með 22 stig.

Stúlkur

Ísland 0-3 Svíþjóð (8-25, 13-25, 8-25). Eldey Hrafnsdóttir skoraði 5 stig fyrir Ísland og Tinna Rut Þórarinsdóttir bætti við 3 stigum. Í liði Svíþjóðar var Maya Tabron stigahæst með 11 stig.

Noregur 3-1 Ísland (25-18, 25-21, 20-25, 25-21). Eldey Hrafnsdóttir var stigahæst allra á vellinum með 16 stig en Matthildur Einarsdóttir og Sara Ósk Stefánsdóttir bættu við 10 stigum hvor. Kristine Tveit skoraði 15 stig fyrir Noreg.

Á morgun heldur mótið áfram og ljúka íslensku drengirnir sínum leikjum í riðlakeppninni þegar þeir mæta liði Englands klukkan 11:00. Sá leikur ræður því miður litlu um áframhald liðsins í mótinu þar sem að Ísland og England geta ekki náð Finnlandi eða Danmörku í efstu tveimur sætum riðilsins. Liðin munu því berjast um 5.-7. sæti mótsins á laugardag og sunnudag.

Stelpurnar leika einnig um 5.-7. sætið og mæta þær því liði sem endar í 4. sæti hins riðilsins, A-riðils. Það verður annað hvort lið Færeyja eða Englands en þau mætast innbyrðis í fyrramálið. Leikur íslensku stúlknanna hefst klukkan 16:00. Þær leika svo síðasta leik sinn klukkan 9:00 á sunnudag.