[sam_zone id=1]

Mol og Sørum óstöðvandi á EM

Evrópumótið í strandblaki fór fram í þessari viku, aðeins nokkrum dögum eftir að keppni lauk á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Að þessu sinni fór mótið fram í Vienna, Austurríki, og tóku alls 64 lið þátt, 32 karlamegin og 32 kvennamegin. Eftir áhorfendalausa Ólympíuleika var kærkomið fyrir keppendur að hitta fyrir fjölmarga áhorfendur í Austurríki og var stemningin algjörlega frábær á mótinu. Ríkjandi meistarar karlamegin, Anders Mol og Christian Sørum, voru mættir til leiks en ríkjandi meistararnir kvennamegin, Anouk Vergé-Dépré og Joana Heidrich, drógu sig úr leik stuttu fyrir mótið.

Karlakeppnin

Nýkrýndir Ólympíumeistarar, Anders Mol og Christian Sørum, hafa unnið þrjú síðustu Evrópumót en engu liði hafði nokkurn tímann tekist að vinna fjögur mót í röð. Einungis þeim þýsku Jonas Reckermann og Laura Ludwig höfðu unnið fjóra titla en hvorugt þeirra vann fjögur mót í röð. Þeir norsku stefndu auðvitað á að bæta fjórða titlinum í safnið og byrjuðu mótið vel.

Mol og Sørum mættu öflugum liðum á leið sinni í úrslitin en þeir unnu ítalska parið Nicolai/Lupo í 16-liða úrslitum, Semenov/Leshukov frá Rússlandi í 8-liða úrslitum og loks unnu þeir hina hollensku Brouwer/Meeuwsen í undanúrslitum mótsins. Norðmennirnir voru því komnir í úrslitin fjórða árið í röð en þar mættu þeir öðru hollensku pari sem sló í gegn á mótinu.

Þeir Stefan Boermans og Yorick de Groot komust með naumindum upp úr riðlakeppninni en fóru á flug í útsláttarkeppninni. Þar felldu þeir hvert stórliðið á fætur öðru og mættu Mol/Sørum í úrslitaleiknum sjálfum. Sá leikur var hnífjafn og æsispennandi og réðust úrslitin í oddahrinu. Þar voru Norðmennirnir sterkari á lokakaflanum og unnu sinn fjórða titil í röð. Ótrúlegur árangur hjá þessum ungu leikmönnum sem eru löngu orðnir stórstjörnur í strandblaksheiminum.

Kvennakeppnin

Þar sem að ríkjandi meistararnir voru ekki mættir til leiks í kvennaflokki var ljóst að mörg lið hugsuðu sér gott til glóðarinnar þetta árið. Þær lettnesku Anastasija Kravcenoka og Tina Graudina urðu Evrópumeistarar árið 2019 og stefndu á að endurheimta gullið en það sama mátti segja um meistarana frá því árið 2018 en það voru Sanne Keizer og Madelein Meppelink frá Hollandi.

Keizer/Meppelink féllu úr leik í 8-liða úrslitum keppninnar og Kravcenoka/Graudina töpuðu undanúrslitaleik gegn öðru hollensku pari, Raisa Schoon og Katja Stam. Schoon og Stam mættu Nina Betschart og Tanja Hüberli frá Sviss í úrslitaleiknum. Bronsleikurinn og úrslitaleikurinn fóru fram á laugardag hjá konunum og það voru Karla Borger og Julia Sude frá Þýskalandi sem tryggðu sér bronsverðlaun eftir sigur á Kravcenoka/Graudina frá Lettlandi.

Í úrslitaleiknum voru Betschart og Hüberli mun sterkari og fóru nokkuð létt með Stam/Schoon. Gullverðlaunin í kvennaflokki fara því til Sviss annað árið í röð og í þriðja sinn frá upphafi keppninnar. Þær stöllur áttu fyrir silfurverðlaun frá EM 2018 og þá átti Tanja Hüberli önnur silfurverðlaun frá árinu 2014. Gullið er því kærkomin viðbót fyrir þetta sterka lið.

Tanja Huberli og Nina Betschart fagna gullinu