[sam_zone id=1]

Mol og Sørum Evrópumeistarar í þriðja sinn

Evrópumótinu í strandblaki lauk í dag en mótið fór fram í Jurmala, Lettlandi.

Strandblakið hefur átt erfitt uppdráttar síðustu mánuði vegna heimsfaraldursins, líkt og aðrar íþróttagreinar. Eftir mikinn undirbúning náðist hins vegar að halda Evrópumótið og tókst það vel þrátt fyrir fjölbreyttar áskoranir. Á þriðja keppnisdegi gekk óveður yfir ströndina í Jurmala og var ekkert leikið á fimmtudag. Keppt var á öðrum völlum á föstudeginum og náðu mótshaldarar að gera aðalvellina spilhæfa fyrir helgina, þrátt fyrir miklar skemmdir.

Í karlaflokki voru augu flestra á norsku stjörnunum Anders Mol og Christian Sørum, meisturum síðustu tveggja Evrópumóta. Þeir hafa verið í sérflokki síðustu ár og þeir stóðu svo sannarlega undir pressunni á þessu móti. Mol og Sørum unnu alla sína leiki á mótinu 2-0 og urðu þar með Evrópumeistarar þriðja árið í röð á sannfærandi hátt. Í úrslitaleiknum mættu þeir ríkjandi heimsmeisturum frá Rússlandi, Oleg Stoyanovskiy og Viacheslav Krasilnikov, sem fengu silfurverðlaunin. Bronsið hrepptu þeir Paolo Nicolai og Daniele Lupo frá Ítalíu.

Í kvennaflokki var spennan öllu meiri en hjá körlunum. Í úrslitaleiknum mættu Kim Behrens og Cinja Tillmann frá Þýskalandi þeim Joana Heidrich og Anouk Vergé-Dépré frá Sviss. Þær Behrens/Tillmann voru einungis tíunda sterkasta lið mótsins samkvæmt styrkleikaröðun mótsins en þær svissnesku voru þar í þriðja sæti. Heidrich/Vergé-Dépré tryggðu sér gullið á mótinu með 2-1 sigri í æsispennandi úrslitaleik gegn þeim þýsku, þar sem að oddahrinunni lauk með 18-16 sigri þeirra fyrrnefndu. Bronsið fengu þær Nadezda Makroguzova og Svetlana Kholomina frá Rússlandi.

Anouk Vergé-Dépré (1) og Joana Heidrich (2).

Lítið er um alþjóðleg mót í strandblakinu um þessar mundir og munu liðin nú flest undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Enn er barist um sæti á leikunum og verður barist um þau þar til í júní 2021.

Myndir fengnar af heimasíðu CEV.