[sam_zone id=1]

Mol og Sørum eru Ólympíumeistarar

Úrslitaleikurinn í strandblaki karla fór fram í nótt sem og bronsleikurinn í sama flokki.

Nú þegar frábæru móti í strandblakinu er að ljúka voru einungis úrslitaleikurinn og bronsleikurinn eftir í karlaflokki. Kvennakeppninni lauk í gær og í nótt fóru því fram síðustu leikirnir þessa Ólympíuleikana í strandblakinu.

Plavins/Tocs – Cherif/Ahmed

Fyrri leikur næturinnar var bronsleikurinn þar sem Lettland mætti Katar. Fyrir Lettland leika Martins Plavins og Edgar Tocs en í liði Katar voru þeir Cherif Samba og Ahmed Tijan mættir til leiks. Plavins/Tocs höfðu verið frábærir framan af móti áður en þeir mættu sterku liði Noregs í undanúrslitum en þeir norsku unnu þann leik örugglega. Cherif og Ahmed töpuðu í hnífjöfnum leik gegn þeim Krasilnikov/Stoyanovskiy í undanúrslitunum og voru til alls líklegir í nótt.

Eftir jafna byrjun í fyrstu hrinu stungu Cherif og Ahmed fljótlega af en þeir náðu 8-1 skorpu um miðja hrinuna. Þeir unnu afar sannfærandi 12-21 sigur í fyrstu hrinunni og þeir lettnesku áttu engin svör við leik Katar. Plavins/Tocs vöknuðu snögglega til lífsins í upphafi annarrar hrinu og leiddu allt þar til um miðja hrinuna. Þá jöfnuðu Cherif/Ahmed leikinn og var lokakaflinn æsispennandi. Aftur voru það Cherif/Ahmed sem höfðu betur, nú 18-21, og 0-2 sigur tryggði þeim bronsverðlaunin.

Mol/Sørum – Krasilnikov/Stoyanovskiy

Úrslitaleikurinn sjálfur var leikur Anders Mol og Christian Sørum frá Noregi gegn Viacheslav Krasilnikov og Oleg Stoyanovskiy sem keppa fyrir hönd rússnesku Ólympíunefndarinnar. Þessi tvö lið hafa barist um stóru titlana undanfarin ár en Mol/Sørum eru þrefaldir Evrópumeistarar á meðan að þeir rússnesku eru ríkjandi heimsmeistarar. Það voru þeir rússnesku sem byrjuðu mun betur í úrslitaleiknum og náðu 1-5 forystu strax í byrjun fyrstu hrinu.

Mol og Sørum vöknuðu fljótlega til lífsins og spiluðu frábærlega í seinni hluta hrinunnar. Þeir sigldu fram úr og unnu fyrstu hrinu 21-17. Önnur hrinan var jöfn og liðin skiptust á stigum framan af. Það var ekki fyrr en eftir miðbik hrinunnar sem Norðmenn náðu að byggja smá forskot og að lokum unnu þeir hrinuna 21-18 og leikinn þar með 2-0. Anders Mol og Christian Sørum eru því Ólympíumeistarar en Krasilnikov og Stoyanovskiy þurfa að sætta sig við silfur.

Mol og Sørum hafa nú unnið til verðlauna á HM, EM og Ólympíuleikum en þeir hafa verið stórkostlegir saman undanfarin ár. Christian Sørum er sá eldri af þeim tveimur en hann er enn aðeins 25 ára gamall og þeir eiga því ansi mörg ár eftir við toppinn ef þeir halda áfram af þessum krafti. Áhugavert er að engin þeirra þjóða sem vann verðlaun í karlaflokki hafði áður komist á verðlaunapall í strandblakinu á Ólympíuleikunum og liðin þrjú eru því öll að skrifa söguna í sínu heimalandi.