[sam_zone id=1]

Modena taplausir í Meistaradeildinni

Fyrri hluta riðlakeppni Meistaradeildar karla lauk í vikunni þegar leikið var í D-riðli.

Riðlakeppnin fór fram í tveimur hlutum að þessu sinni og var fyrri hluta nú þegar lokið í riðlum A, B, C og E. Belgíska liðið Knack Roeselare var gestgjafi þessa fyrri hluta D-riðils og fóru leikir vikunnar fram á heimavelli þeirra. Auk Roeselare taka lið Warszawa, Kemerovo og Modena þátt í D-riðlinum.

Heimamenn í Roeselare eru á toppi belgísku deildarinnar og Kemerovo eru sem stendur í öðru sæti rússnesku deildarinnar en hin liðin tvö eru um miðja deild í sínum heimalöndum. Modena hefur ekki náð sér á strik í ítölsku deildinni og hefur tapað fjórum af síðustu fimm deildarleikjum sínum. Liðið er þó vel mannað og því óvænt að gengið sé ekki betra. Lið Warszawa er í 5. sæti pólsu deildarinnar en baráttan um 4.- 9. sæti deildarinnar er mjög hörð. Það var því erfitt að segja til um sigurvegara riðilsins fyrirfram og búist við nokkuð jöfnum leikjum.

Modena byrjaði vikuna frábærlega með 3-1 sigri gegn Kemerovo og þá vann Warszawa þægilegan sigur gegn Roeselare. Sigurliðin tvö mættust svo á öðrum keppnisdegi vikunnar þar sem Modena gerði sér lítið fyrir og vann pólska liðið 3-0. Modena tryggði svo toppsæti riðilsins með því að vinna 3-2 sigur gegn Roeselare. Warszawa vann öruggan sigur gegn Kemerovo á lokadeginum og er í 2. sæti riðilsins. Kemerovo er því í 3. sæti og Roeselare á botninum.

Seinni helmingur riðlakeppninnar fer fram í janúar og febrúar 2021 en í fjórum af riðlunum fimm verður leikið dagana 9.- 11. febrúar. Það verður því ljóst í byrjun febrúar hvaða lið fara í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Úrslit vikunnar

Kuzbass Kemerovo 1-3 Leo Shoes Modena (23-25, 19-25, 25-22, 28-30). Ivan Zaytsev var öflugur í liði Kemerovo og skoraði 23 stig gegn sínum gömlu félögum í Modena. Í liði Modena dreifðist stigaskorið mjög jafnt en Daniele Lavia var stigahæstur með 13 stig. Þar á eftir komu Nemanja Petric, Luca Vettori og Daniele Mazzone með 12 stig hver.

Knack Roeselare 0-3 Verva Warszawa Orlen Paliwa (18-25, 24-26, 19-25). Matthijs Verhanneman skoraði 12 stig fyrir Roeselare en Artur Szalpuk var stigahæstur í liði Warszawa með 15 stig.

Warszawa 0-3 Modena (21-25, 17-25, 24-26). Jakub Ziobrowski kom af bekknum hjá Warszawa en var stigahæstur hjá liðinu með 10 stig. Nemanja Petric var stigahæstur í liði Modena með 15 stig en Daniele Lavia bætti við 14 stigum.

Roeselare 0-3 Kemerovo (24-26, 16-25, 20-25). Matthijs Verhanneman var stigahæstur í liði Roeselare með 14 stig en hjá Kemerovo skoraði Ivan Zaytsev 13 stig og Alexander Markin kom næstur með 11 stig.

Warszawa 3-0 Kemerovo (25-22, 25-22, 25-16). Bartosz Kwolek var stigahæstur hjá Warszawa með 15 stig en Ivan Zaytsev skoraði 9 stig fyrir Kemerovo.

Modena 3-2 Roeselare (25-27, 25-19, 22-25, 25-22, 15-11). Daniele Lavia skoraði 20 stig fyrir Modena en Hendrik Tuerlinckx var stigahæstur í liði Roeselare með 24 stig.

Mynd fengin af heimasíðu CEV.