[sam_zone id=1]

Modena slapp með skrekkinn í D-riðli

Riðlakeppni Meistaradeildar karla lauk í gærkvöldi en alls fóru 15 leikir fram í þessari viku.

Keppni í A-riðli lauk í lok janúar en nú í vikunni fór seinni hluta hinna riðlanna fram. Tveir riðlar fóru fram á Ítalíu, einn í Þýskalandi og einn í Rússlandi og var nóg um að vera. Leikirnir voru alls 15 í vikunni í fjórum riðlum. Pólska liðið Zaksa hafði nú þegar unnið A-riðilinn og tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar en 7 sæti voru enn laus. Í hádeginu í dag, föstudag, var svo dregið í 8-liða úrslitin og má sjá viðureignirnar hér neðar í fréttinni.

Sigurvegarar hvers riðils fá sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en þar sem riðlarnir eru fimm talsins eru þrjú sæti laus til viðbótar í útsláttarkeppninni. Þau lið sem enda í 2. sæti sinna riðla eiga möguleika á áframhaldandi þátttöku og er það fjöldi sigra sem skiptir liðin mestu máli. Þar á eftir kemur stigafjöldi sem skiptir einnig afar miklu máli. Á síðasta tímabili voru fjögur lið í 2. sæti síns riðils með fjóra sigra og því féll lið Greenyard Maaseik úr leik þrátt fyrir að vinna fjóra leiki af sex. Allar líkur voru því á að fjóra sigra þyrfti til að komast í 8-liða úrslitin.

Þegar fyrri hluti riðlakeppninnar fór fram voru tvö lið sem gáfu leiki sína vegna smita innan liða sinna en það voru pólska liðið Jastrzebski Wegiel og tyrkneska liðið Arkas Izmir. Þessi tvö lið þurftu einnig að gefa seinni þrjá leiki sína af sömu ástæðu og tóku því ekki þátt í riðlakeppninni að þessu sinni. Skömmu fyrir fyrstu leiki í E-riðli þurfti lið Friedrichshafen einnig að draga sig úr leik vegna smita innan liðsins. Aðstæður í E-riðli voru því ansi sérstakar þar sem að Friedrichshafen var gestgjafinn þessa vikuna og fóru leikirnir fram á þeirra heimavelli.

Í B-riðli var lið Lube í afar góðri stöðu en þeir voru með fullt hús stiga eftir fyrri þrjá leikina. Perugia töpuðu fyrri leik sínum gegn Lube en voru engu að síður í góðri stöðu í 2. sæti riðilsins. Þar sem að Arkas Izmir var upprunalega í B-riðlinum voru einungis lið Lube, Perugia og Tours sem börðust um sæti í 8-liða úrslitunum í riðlinum.

Á þriðjudag mætti Lube liði Tours og vann þann leik nokkuð sannfærandi, 3-1. Þessi sigur fleytti liði Lube áfram í 8-liða úrslitin og Tours átti ekki möguleika á því. Perugia gat hins vegar enn komist í 8-liða úrslitin en þurfti helst að vinna öruggan sigur gegn Lube. Það gerði lið Perugia en þeir unnu 3-0 sigur á Lube og hagstæð úrslit annarra leikja þýddu að þeir voru öruggir í 8-liða úrslitin. Perugia vann Tours 3-1 í lokaleiknum og vann B-riðil en Lube fór auðveldlega áfram með bestan árangur liðanna í 2. sæti riðlanna.

Stórlið Zenit Kazan hafði góð tök á keppinautum sínum í C-riðli í fyrri leikjum riðilsins en lið Jastrzebski Wegiel átti að taka þátt þar. Í C-riðli voru því Zenit Kazan, Berlin Recycling Volleys og ACH Volley Ljubljana. Þar stóð Kazan afar vel að vígi enda átti Jastrzebski að vera það lið sem gæti veitt þeim hvað mesta mótspyrnu.

Í fyrsta leik vikunnar vann Berlin sannfærandi sigur gegn Ljubljana og náði þar í sinn fjórða sigur í fimm leikjum. Lið Zenit Kazan vann hins vegar báða leiki sína í vikunni, bæði gegn Berlin og Ljubljana. Þeir unnu því alla sex leiki sína í riðlinum og fóru auðveldlega áfram í 8-liða úrslitin. Berlin átti enn séns á sæti í 8-liða úrslitum en þurfti að treysta á hagstæð úrslit í öðrum riðlum. Þar sem að liðin í D-riðli hirtu stig hvert af öðru slapp Berlin inn í 8-liða úrslitin og var síðasta liðið til að tryggja sér sæti þar.

D-riðillinn var fyrir þessa viku sá mest spennandi en þar gerði lið Modena frábæra hluti í fyrri hluta riðilsins. Modena vann alla þrjá leiki sína en Warszawa vann tvo af þremur leikjum sínum. Rússneska liðið Kuzbass Kemerovo vann einn leik og var enn með í baráttunni en Knack Roeselare frá Belgíu var án sigurs. Seinni hluti riðilsins fór fram á heimavelli Modena á Ítalíu og voru þeir því mjög sigurstranglegir. Warszawa og Kemerovo áttu enn raunhæfa möguleika á sæti í 8-liða úrslitunum en það breyttist fljótt.

Strax á þriðjudag vann Modena 3-0 sigur gegn Kemerovo sem gerði út um vonir Kuzbass. Þá vann Warszawa gegn Knack Roeselare og var enn á lífi. Næstu tveir dagar voru hins vegar afar áhugaverðir. Á miðvikudag vann Warszawa 3-2 sigur gegn Modena og á fimmtudag gerði lið Roeselare sér lítið fyrir og vann Modena 3-0. Það þýddi að Warszawa gat unnið riðilinn með sigri á Kuzbass Kemerovo í síðasta leik riðilsins.

Lokamínúturnar í leik Warszawa gegn Kuzbass voru einhverjar þær ótrúlegustu í manna minnum. Ljóst var þegar leikurinn fór í oddahrinu að sigur myndi duga þeim pólsku til að komast í 8-liða úrslit en tap þýddi að kafa þyrfti djúpt í kerfið og reikna stigahlutfall liðanna í leikjum riðlakeppninnar. Kuzbass valtaði yfir Warszawa í oddahrinunni og vann 15-5 sem þýddi að Modena slapp fyrir horn og komst í 8-liða úrslitin. Warszawa hefði dugað að tapa oddahrinunni 15-9 en allt kom fyrir ekki. Modena vann því riðilinn og fer í 8-liða úrslitin en Warszawa er úr leik.

Að lokum var komið að E-riðli þar sem að Trentino frá Ítalíu gerði flotta hluti og vann fyrstu þrjá leiki sína. Lið Friedrichshafen hafði unnið tvo leiki og lék á heimavelli nú í þessari viku sem gerði fjarveru þeirra vegna smitanna enn meira svekkjandi. Þar á eftir komu rússnesku meistararnir í Lokomotiv Novosibirsk með einn sigur og Karlovarsko frá Tékklandi án sigurs. Lið Novosibirsk barðist því um sæti í 8-liða úrslitunum en Trentino var í raun eina lið riðilsins með raunhæfa möguleika á sæti þar.

Trentino tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum strax eftir fyrsta leik þar sem að liðið hafði þá unnið alla fimm leiki sína. Trentino vann 3-0 gegn Novosibirsk í þessum fyrsta leik og var þá búið að gulltryggja sæti sitt í útsláttarkeppninni. Jafnframt voru vonir Novosibirsk um sæti í 8-liða úrslitunum farnar út um gluggann. Trentino vann alla sex leiki sína í riðlinum sem var annars nokkuð slakur. Hin þrjú liðin áttu ekki mikla möguleika á því að komast í útsláttarkeppnina og eru úr leik.

Næsta stig keppninnar er útsláttarkeppni þar sem byrjað er á 8-liða úrslitum. Fyrri leikir liðanna fara fram dagana 23.-25. febrúar og seinni leikirnir 2.-4. mars. Leikið verður heima og að heiman svo að samanlögð úrslit ráða því hvort liðið fari áfram í undanúrslitin.

Viðureignirnar í 8-liða úrslitunum verða æsispennandi og ber þar hæst leiki Lube og Zaksa sem voru fyrirfram talin þau líklegustu til að vinna keppnina. Þá mætast ítölsku liðin Perugia og Modena en Trentino fékk þægilegustu viðureignin þar sem að liðið mætir Berlin. Að lokum eru það Zenit Kazan og Skra Belchatow sem mætast.

8-liða úrslit

PGE Skra Belchatow (Pólland) – Zenit Kazan (Rússland)

Cucine Lube Civitanova (Ítalía) – Zaksa Kedzierzyn-Kozle (Pólland)

Berlin Recycling Volleys (Þýskaland) – Trentino Itas (Ítalía)

Leo Shoes Modena – Sir Safety Perugia (Ítalía)

Úrslit vikunnar

B-riðill (Perugia)

Cucine Lube Civitanova 3-1 Tours VB (22-25, 25-20, 25-21, 25-15). Engin tölfræði er til staðar úr leiknum.

Perugia 3-0 Lube (25-21, 25-18, 25-21). Wilfredo Leon var stigahæstur með 17 stig fyrir Perugia og Oleh Plotnytskyi skoraði 14 stig. Hjá Lube var Osmany Juantorena atkvæðamestur með 10 stig og Robertlandy Simon bætti við 9 stigum.

Tours 1-3 Perugia (25-18, 15-25, 14-25, 21-25). Pablo Nathan Ventura Machado skoraði 15 stig fyrir Tours og Pierre Toledo skoraði 14 stig. Hjá Perugia var Wilfredo Leon stigahæstur með 18 stig en Sebastian Sole kom næstur með 14 stig.

C-riðill (Kazan)

ACH Volley Ljubljana 0-3 Berlin Recycling Volleys (19-25, 20-25, 13-25). Jan Pokersnik og Mitar Tzourits voru stigahæstir hjá Ljubljana með 12 stig hvor. Anton Brehme var stigahæstur hjá Berlin, sömuleiðis með 12 stig, en Renan Michelucci Moralez, Timothée Carle og Benjamin Patch skoruðu 11 stig hver.

Berlin 0-3 Kazan (18-25, 16-25, 14-25). Benjamin Patch var öflugur í liði Berlin með 14 stig en næstur kom Cody Kessel með 5 stig. Earvin Ngapeth var stigahæstur í liði Kazan en Artem Volvich og Bartosz Bednorz skoruðu 8 stig hvor.

Kazan 3-1 Ljubljana (25-21, 20-25, 25-20, 25-20). Andrey Surmachevskiy var stigahæstur hjá Kazan með 22 stig, þar af 6 stig úr hávörn. Bozidar Vucicevic skoraði sömuleiðis 22 stig fyrir Ljubljana og Matej Kok bætti við 15 stigum.

D-riðill (Modena)

Knack Roeselare 1-3 Verva Warszawa Orlen Paliwa (25-20, 19-25, 20-25, 18-25). Matthijs Verhanneman og Rune Fasteland skoruðu 13 stig hvor fyrir Roeselare og Hendrik Tuerlinckx kom næstur með 9 stig. Piotr Nowakowski var stigahæstur hjá Warszawa með 18 stig og Michal Superlak skoraði 14 stig.

Kuzbass Kemerovo 0-3 Leo Shoes Modena (22-25, 15-25, 21-25). Ivan Zaytsev skoraði 11 stig fyrir Kemerovo og Evgeny Sivozhelez kom næstur með 10 stig. Daniele Lavia var stigahæstur hjá Modena með 15 stig og Luca Vettori bætti við 14 stigum.

Roeselare 3-1 Kemerovo (18-25, 25-20, 25-20, 25-17). Matthijs Verhanneman skoraði 16 stig fyrir Roeselare og Mathijs Desmet kom næstur með 14 stig. Bogdan Glivenko var stigahæstur hjá Kemerovo með 14 stig en Anton Karpukhov og Roman Pakshin skoruðu 11 stig hvor.

Warszawa 3-1 Modena (20-25, 27-25, 22-25, 25-18, 15-10). Bartosz Kwolek var stigahæstur hjá Warszawa með 25 stig en Piotr Nowakowski og Igor Oskar Grobelny skoruðu 13 stig hvor. Daniele Mazzone var stigahæstur hjá Modena með 14 stig og Daniele Lavia bætti við 12 stigum.

Modena 0-3 Roeselare (22-25, 21-25, 22-25). Nemanja Petric skoraði 17 stig og Moritz Karlitzek bætti við 10 stigum. Mathijs Desmet átti stórleik og skoraði 23 stig en Matthijs Verhanneman og Rune Fasteland skoruðu 10 stig hvor.

Warszawa 2-3 Kemerovo (23-25, 25-21, 18-25, 25-19, 5-15). Bartosz Kwolek skoraði 20 stig fyrir Warszawa og Igor Oskar Grobelny bætti við 16 stigum. Ivan Zaytsev var stigahæstur hjá Kemerovo með 18 stig og Evgeny Sivozhelez skoraði 16 stig.

E-riðill (Friedrichshafen)

Trentino Itas 3-0 Lokomotiv Novosibirsk (25-19, 25-20, 25-15). Nimir Abdel-Aziz skoraði 17 stig fyrir Trentino og Dick Kooy skoraði 9 stig. Drazen Luburic var stigahæstur hjá Novosibirsk með 13 stig en næstur kom Marko Ivovic með 10 stig.

Karlovarsko 1-3 Trentino (22-25, 25-23, 20-25, 22-25). Marcel Lux og Patrik Indra voru stigahæstir hjá Karlovarsko með 14 stig hvor. Nimir Abdel-Aziz skoraði 20 stig fyrir Trentino og Srecko Lisinac bætti við 14 stigum.

Novosibirsk 3-2 Karlovarsko (25-20, 29-31, 27-29, 25-23, 15-13). Marko Ivovic og Aleksey Rodichev skoruðu 18 stig hvor fyrir Novosibirsk en næstur kom Iliyas Kurkaev með 17 stig. Marcel Lux skoraði 26 stig fyrir Karlovarsko og Daniel Rimal skoraði 25 stig.

Mynd fengin af heimasíðu CEV.