[sam_zone id=1]

Mizunolið geta hafið æfingar í dag

Nýjar sóttvarnarreglur tóku gildi í dag, 10. desember, og mega liðin í Mizunodeildunum hefja æfingar að nýju.

Breytingarnar voru tilkynntar á þriðjudag en tóku gildi í dag, fimmtudag. Síðustu vikur hefur íþróttastarf einungis verið heimilt hjá börnum fæddum árið 2004 eða seinna en með breytingunum geta lið í efstu deildum íþrótta innan ÍSÍ hafið æfingar. Fyrir blakara þýðir þetta að lið í Mizunodeildum karla og kvenna geta hafið æfingar að nýju en BLÍ hefur einnig sótt um undanþágu fyrir næstefstu deild kvenna.

BLÍ vinnur nú að því að uppfæra sóttvarnarreglur sínar í samræmi við þessa nýju reglugerð ráðherra og einnig er unnið að endurskipulagningu mótahalds. Ljóst er að ekki verður leikið fyrr en í janúar 2021 í fyrsta lagi og að leikið verður mjög þétt ef keppni í Mizunodeildunum fer fram með sama eða svipuðum hætti og áætlað var. Þá mun þurfa að endurskoða keppni í Kjörísbikarnum sem og öllum neðri deildum.