[sam_zone id=1]

Mizunodeild kvenna: Þróttur Nes með sigur í háspennuleik

Álftanes og Þróttur Nes mættust öðru sinni um helgina í Mizunodeild kvenna en Álftanes vann fyrri leik liðanna í gær 3-0.

Þróttur Nes byrjaði leikinn af miklum krafti og voru þær staðráðnar að láta Álftanes ekki vinna annan 3-0 sigur. Leikurinn var þó mjög jafn og bæði lið að sína flotta takta. Þróttur Nes unnu þó fyrstu hrinuna eftir upphækkun 28-26. Þær bættu svo um betur og komust í 2-0 forystu að hafa sigrað aðra hrinuna 25-20.

Álftanes voru fljótar að jafna sig og komu þær gríðarlega sterkar til leiks í þriðju hrinunni. Þróttur Nes náði ekki að halda í við Álftanes sem unnu þriðju hrinuna 25-19. Þær bættu svo um betur í fjórðu hrinunni þar sem Þróttara stelpur sáu aldrei til sólar en Álftanes sigraði þá hrinu 25-13 og tryggði sér þar með oddahrinu.

Oddahrinan var frábær skemmtun þar sem liðin skiptust á að skora. Það munaði aldrei meira en einu til tveimur stigum á liðunum alla hrinuna. Það þurfti að lokum upphækkun til að skera úr um á milli liðanna og þar voru það Þróttara stelpur sem voru sterkari og unnu 17-15 sigur og þar með leikinn 3-2.

Stigahæst á vellinum í dag var Ísabella Erna Sævarsdóttir en hún skoraði 27 stig í dag þar af 9 stig beint úr uppgjöf.
Það voru síðan Tinna Rut Þórarinsdóttir og Heiða Elísabet Gunnarsdóttir sem voru stigahæstar hjá Þrótti Nes en Tinna skoraði 15 stig á meðan Heiða bætti við 14.

Liðin eru nú eftir helgina jöfn á botni deildarinnar með 8 stig hvort lið.