[sam_zone id=1]

Mizunodeild karla: Afturelding og HK með sigra

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild karla í dag. Í Mosfellsbæ áttust við lið Aftureldingar og KA á meðan HK skellti sér á vestfirðina og spilaði þar hörkuleik við heimamenn í Vestra.

KA menn léku án Miguel Mateo í leiknum í dag og sást strax í byrjun að það var að há sóknarleik KA manna. Afturelding voru hinsvegar tilbúnir í leikinn og með Sigþór Helgason í fararbroddi unnu Afturelding fyrstu hrinu nokkuð örugglega 25-19.

Önnur hrinan var jafnari og voru KA menn með frumkvæðið framan af, KA leiddu 20-16 og virtust ætla að sigra aðra hrinu leiksins. Afturelding sagði þá hingað en ekki lengra og skoraði 9 stig gegn einu hjá KA mönnum og unnu hrinuna 25-21.
Þeir fylgdu því svo eftir í þriðju hrinu og unnu hana sannfærandi 25-12 og þar með leikinn 3-0.

Sigurinn breytti litlu fyrir Aftureldingu sem er enn í fimmta sæti deildarinnar með 15 stig. KA hefði hinsvegar getað skotist upp fyrir Álftanes í þriðja sæti deildarinnar en eru enn í fjórða sætinu stigi á eftir Álftanes þegar ein umferð er eftir af deildinni.

Það var öllu meiri spenna fyrir vestan þegar að Vestri tók á móti HK. Vestri hafði að litlu að keppa þar sem liðið er í neðsta sæti deildarinnar og getur ekki komist þaðan. HK er hinsvegar í hörkukeppni við Þrótt Nes um deildarmeistaratitilinn og voru fyrir leikinn fjórum stigum á eftir Þrótturum en með leik til góða.

HK byrjuðu leikinn betur og voru mun betri í fyrstu hrinu leiksins. Þeir unnu hana 25-15.
Vestri tók þá við sér og byrjuðu að spila frábært blak þeir náðu betra valdi á móttökunni hjá sér og unnu þeir næstu tvær hrinur 25-22 og 25-20.

HK voru þar með komnir upp við vegg og þurftu að vinna næstu hrinu til að eiga enn möguleika á deildarmeistaratitlinum. Fjórða hrinan var æsispennandi en HK voru þó ávallt með yfirhöndina og unnu þeir hrinuna 25-21 og tryggðu sér oddahrinu í leiknum.

Þar voru HK menn einnig sterkari og þrátt fyrir góðan endasprett hjá Vestra náðu þeir ekki að ná HK sem sigraði hrinuna 15-13 og leikinn þar með 3-2.

Atkvæðamestur hjá HK í leiknum var Janis Novikovs en hann skoraði 20 stig þar af 6 stig beint úr uppgjöf. Mateuz Kloska var stigahæstur hjá Vestra en hann skoraði einnig 20 stig í leiknum.

HK eru eftir þennan sigur enþá í öðru sæti deildarinnar tveimur stigum á eftir Þrótti Nes og þurfa þeir að treysta á að KA menn nái að stríða Þrótti í lokaumferðinni til að eiga möguleika á titlinum.