[sam_zone id=1]

Mizuno-deildirnar aftur af stað

Mizuno deildir karla og kvenna hófust aftur í dag eftir langa covid-pásu. Það voru þrír leikir í dag einn hjá konunum og tveir í karladeildinni.

Það voru stelpurnar sem að byrjuðu og voru það Þróttur Nes. sem voru í heimsókn í Kópavogi. Þar voru það HK stelpur sem að byrjuðu mun betur og unnu fyrstu hrinuna örugglega. Þróttarstelpur veittu aðeins meiri mótspyrnu í næstu tveimur hrinum en það dugði ekki til HK vann 3-0 (25-8, 25-16,25-20). Hjá HK var Michelle stigahæst með 10 stig en hjá Þrótti var Heiða stigahæst með 9 stig.

Í Mosfellsbæ voru KA menn í heimsókn, það vakti athygli að sjá að Theodór Óskar væri kominn í lið Aftureldingar og verður gaman að sjá hvað þessi gríðarsterki leikmaður getur gert fyrir Aftureldingu. En þetta voru einu gleðifréttirnar fyrir Aftureldingu í dag en þeir sáu aldrei til sólar gegn sterkum KA-mönnum sem að unnu öruggan sigur 3-0 (13-25,12-25,12-25). Ekki hefur borist tölfræði úr þessum leik.

Síðasti leikur dagsins var svo viðureign HK og Þróttar Nes, hjá körlunum. Fyrsta hrinan var mjög jöfn og gat dottið báðum megin en það voru HK sem voru sterkari á lokasprettinum og unnu 26-24. Við þetta virtist allur vindur úr Þrótti og kláruðu HK síðustu tvær hrinurnar nokkuð þægilega. 3-0 (26-24, 25-14, 25-15). Stigahæstur hjá HK var Andreas með 13 stig en hjá Þrótti var Melero atkvæðamestur með 13 stig.