[sam_zone id=1]

Mizuno-deildin: Sigur og tap fyrir austan

Þrír leikir fóru fram í Mizuno-deildum karla og kvenna í dag.

Í fyrsta leik dagsins lögðu HK menn land undir fót og fóru í Neskaupstað þar sem þeir mættu heimamönnum í Þrótti. Leikurinn var jafn til að byrja með en HK þó alltaf með frumkvæðið, góð barátta Þróttara dugði þó ekki til en HK vann fyrstu hrinu 25-22.
HK byrjuðu aðara hrinuna mjög vel og var sigurinn aldrei í hættu í þessari hrinu en HK vann hana örugglega 25-12. Heimamenn voru þó ekki á því að láta valta aftur yfir sig og mættu betur stemmdir í þriðju hrinuna, þeir veittu HK góða keppni en því miður fyrir þá þá vantaði alltaf herslumuninn og voru það HK sem að kláruðu hrinuna að lokum 25-19. Þetta breytti stöðunni í deildinni þó ekki mikið en liðin sitja enn í 2. og 4. sæti deildarinnar.

Næst voru það svo KA stelpur sem að tóku á móti Þrótti R. í Mizuno deild kvenna. Það voru Þróttara stelpur sem að byrjuðu betur í dag en þær komust nokkrum stigum yfir í byrjun hrinunar. KA voru þó ekki lengi að jafna og fylgdust liðin að til loka, þar voru það svo KA sem voru sterkari og unnu 25-22. KA voru svo með góð tök á annari hrinunni en Þróttur var aldrei langt undan, KA landaði samt nokkuð þægilegum sigri 25-17. Þriðja hrinan var svo keimlík þeirri fyrstu en liðin fylgdust að alveg til enda en KA þó alltaf með undirtökin, góð barátta Þróttar dugði samt ekki til og unnu KA 25-23 og þar með leikinn 3-0. Eftir þennan leik sitja liðin enn á sama stað í deildinni í 3. og 5 sæti.

Síðasti leikur dagsins, var einnig í Neskaupstað, en hann bauð svo uppá mestu spennuna en þar  mættust Þróttur og Álftanes í Mizuno deild kvenna. Leikurinn var mjög jafn en það voru Þróttur sem byrjaði betur og náði í sigur í fyrstu hrinu 25-22. Álftanes gáfust hinsvegar ekki upp og svöruðu vel fyrir sig með góðum sigri í annari hrinu 25-18. Þær héldu svo þessari góðu spilamennsku áfram í þriðju hrinunni og unnu hana einnig 25-21. Fjórða hrinan var svo mjög jöfn allan tíman og gat dottið báðum megin, það voru svo Þróttarar sem voru sterkari i lokinn og náðu að knýja fram oddahrinu. Í oddahrinunni var hinsvegar bara eitt lið á vellinum og það var Þróttur en þær voru miklu betri í oddahrinunni og unnu hana örugglega 15-8. Góður sigur hjá Þrótti sem að sitja áfram í 4. sæti en Álftanes leitar enn að sínum fyrsta sigri á botninum.