[sam_zone id=1]

Mikil spenna á Akureyri

Í kvöld hófst keppni í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins en alls fóru fjórir leikir fram í karla- og kvennaflokki.

Leikið var bæði karla- og kvennamegin í kvöld en hjá körlunum mættust Hamar og Álftanes og fór leikurinn fram á heimavelli Álftnesinga. Búist var við þægilegum sigri gestanna sem hafa unnið alla leiki sína til þessa á tímabilinu. Álftanes hefur hins vegar ekki náð sér á strik en þó var síðasta viðureign liðanna nokkuð jöfn. Hamarsmenn byrjuðu leikinn á að ná 2-8 forystu og leit allt út fyrir að þeir myndu valta yfir heimamenn. Álftanes minnkaði muninn þó í eitt stig en Hamar gerði mun betur í seinni hluta hrinunnar og vann 13-25 eftir að hafa skorað síðustu 7 stigin.

Í annarri hrinunni byggði Hamar smám saman upp öruggt forskot og áttu Álftnesingar engin svör við leik gestanna. Hamar vann 10-25 og leiddi 0-2. Þriðja hrinan var mun jafnari en þó hafði Hamar nokkurra stiga forystu stærstan hluta hennar. Hamar vann hrinuna 19-25 og leikinn þar með 0-3. Hamar fer því í undanúrslit Kjörísbikarsins á kostnað Álftnesinga.

Kvennamegin fóru þrír leikir fram og þar af voru tveir leikir milli Mizunodeildarliða. HK tók á móti Þrótti Reykjavík í Fagralundi og byrjaði leikinn af krafti. HK leiddi 9-3 í fyrstu hrinu og hélt öruggu forskoti út hrinuna. HK vann 25-14 en Þróttarar náðu sér betur á strik í annarri hrinu. Þar höfðu þær forystuna framan af hrinunni en lið HK gerði betur undir lokin og vann 25-20. HK leiddi þar með 2-0 og í góðri stöðu.

Þriðja hrinan var einungis formsatriði fyrir heimakonur en þær unnu hana auðveldlega, 25-11, og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum Kjörísbikarsins. Stigahæstar í liði HK voru Hjördís Eiríksdóttir og Michelle Traini en þær skoruðu 12 stig hvor. Hjá Þrótti R skoruðu María Gunnarsdóttir og Arna Védís Bjarnadóttir 6 stig hvor.

Afturelding, sem er við topp Mizunodeildarinnar, mætti 1.deildarliði Fylkis og var því að búast við auðveldum sigri Aftureldingar. Gestirnir úr Árbænum náðu hins vegar að stríða Mosfellingum hressilega í fyrstu hrinu og leiddu 3-9. Heimakonur voru þó ekki lengi að jafna leikinn og gerði 14-3 skorpa heimakvenna út um hrinuna. Afturelding vann fyrstu hrinuna 25-18. Þær komu betur undirbúnar í aðra hrinuna og var sigur Aftureldingar aldrei í hættu. Mosfellingar unnu 25-14 og gerðu slíkt hið sama í þriðju hrinu. Þær unnu leikinn því sannfærandi, 3-0, og eru þar með komnar í undanúrslitin.

Stigahæst í liði Aftureldingar var Thelma Dögg Grétarsdóttir með 18 stig og Steinunn Guðbrandsdóttir skoraði 11 stig. Svana Björk Steinarsdóttir skoraði 9 stig fyrir Fylki og Jóhanna Jakobsdóttir bætti við 6 stigum.

Þriðji kvennaleikur kvöldsins og sá mest spennandi var viðureign KA og Þróttar Fjarðabyggð sem fór fram á Akureyri. KA var í mun betri stöðu í Mizunodeildinni en Þróttur Nes hefur þó átt ágæta leiki það sem af er tímabili. Tinna Rut Þórarinsdóttir, sem skipti yfir í Þrótt frá Lindesberg í síðustu viku, lék ekki með liði Þróttar Fjarðabyggð og mættu bæði lið til leiks með sama mannskap og í síðustu leikjum.

Fyrsta hrina leiksins var afar sveiflukennd en það voru Þróttarar sem höfðu forystuna framan af. Norðankonur gerðu þó mun betur undir lokin og unnu hrinuna 25-22. Þær héldu uppteknum hætti í annarri hrinu og völtuðu gjörsamlega yfir gestina. KA vann aðra hrinu 25-15 og virtist ætla að fara létt með Þróttara. Þá snerist leikurinn hins vegar við og var þriðja hrinan æsispennandi. Mestur var munurinn fjögur stig og var það í stöðunni 18-22. KA náði að jafna og eftir mikinn æsing undir lokin vann Þróttur 25-27 og tryggði sér aðra hrinu.

Við þetta virtust gestirnir fyllast trú og leiddu frá fyrsta stigi fjórðu hrinuna. Hana unnu þær 18-25 og fór leikurinn því í oddahrinu. Þar byrjaði KA betur og var skrefi á undan alla hrinuna. KA vann oddahrinuna 15-9 og leikinn þar með 3-2. Þróttur Fjarðabyggð náði því ekki að klára endurkomuna en leikurinn var engu að síður jafn og afar spennandi. Mireia Orozco var stigahæst í liði KA með 21 stig en þar á eftir komu Paula Del Olmo Gomez og Gígja Guðnadóttir með 14 stig hvor. Maria Eugenia Sageras skoraði 19 stig fyrir Þrótt Fjarðabyggð og Maria Jimenez Gallego bætti við 17 stigum.

Liðin þrjú sem berjast um efsta sætið í Mizunodeildinni eru þar með öll komin í undanúrslit Kjörísbikars kvenna auk Hamars karlamegin. Síðasti leikurinn hjá konunum verður leikur Völsungs gegn Álftanesi en heimakonur spila í 1. deildinni á meðan að Álftanes leikur í Mizunodeildinni.

Næstu þrjá dagana fara hinir leikir 8-liða úrslitanna fram og verður stórleikur á laugardag þegar Afturelding tekur á móti KA karlamegin. Þessi lið eru í 2. og 3. sæti Mizunodeildar karla og vann KA 3-2 sigur þegar liðin mættust síðast. Á sunnudag fer síðasti leikur 8-liða úrslitanna fram þegar Fylkir mætir Vestra í Árbænum en að þeim leik loknum verður dregið í undanúrslit keppninnar. Undanúrslitaleikir kvenna fara fram föstudaginn 12. mars og karlamegin verður leikið til undanúrslita 13. mars. Úrslitaleikirnir fara svo fram sunnudaginn 14. mars og fara allir leikir helgarinnar fram í Digranesi.