[sam_zone id=1]

Meistararakeppni BLÍ 2021

Meistarakeppni BLÍ fór fram í kvöld þegar leikið var bæði í karla- og kvennaflokki.

Leikið var að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld og það voru karlarnir sem hófu leik. Þrefaldir meistarar Hamars mættu þar Aftureldingu og mættu Hvergerðingar til leiks með nýjan leikmann. Tomek Leik kemur til liðsins frá Gietrzwald í Póllandi en honum er ætlað að fylla skarð Radoslaw Rybak í stöðu díó. Rybak er spilandi þjálfari liðsins en mun þá einbeita sér frekar að þjálfun en eigin spilamennsku.

Kvennamegin mættust Afturelding og HK, liðin sem léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Afturelding er ríkjandi Íslandsmeistari en HK vann deildina og bikarkeppnina. Afturelding hafði bætt við sig síðan í vor en HK hafði hins vegar misst nokkra leikmenn.

Afturelding – Hamar

Karlarnir byrjuðu fjörið og þar voru það Hamarsmenn sem byrjuðu af krafti. Afturelding hékk í þeim framan af en um miðja hrinuna stakk Hamar af. Hamar vann fyrstu hrinuna sannfærandi, 17-25, en Afturelding gerði mun betur í annarri hrinu. Mosfellingar náðu mest fjögurra stiga forskoti í hrinunni en Hamar saxaði smám saman á forskotið. Hvergerðingar voru svo sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 20-25.

Í þriðju hrinunni voru Hamarsmenn með nokkurra stiga forskot um miðja hrinu og virtust ætla að sigla sigrinum auðveldlega heim. Afturelding gafst ekki upp og minnkaði muninn en það dugði ekki til. Hamar vann 20-25 og vann leikinn þar með 0-3. Hamar er því meistari meistaranna árið 2021 í karlaflokki og vinnur fyrsta titil tímabilsins.

Afturelding – HK

Miðað við breytingar á mannskap liðanna hefði lið Aftureldingar verið talið mun sigurstranglegra fyrir leikinn. HK kom hins vegar á óvart í fyrstu hrinu og leiddi stærstan hluta hrinunnar. Afturelding jafnaði loks í stöðunni 18-18 og varð lokakaflinn æsispennandi. Afturelding vann á endanum 26-24 sigur og leiddi leikinn 1-0.

Mosfellingar vöknuðu aldeilis til lífsins í annarri hrinu og náði forskot þeirra fljótlega tveggja stafa tölu. Hrinan náði aldrei svipuðu spennustigi líkt og fyrsta hrinan og Afturelding vann auðveldlega, 25-11. Í þriðju hrinu virtist Afturelding ætla að stinga af líkt og í annarri hrinu en HK gafst ekki upp og minnkaði muninn töluvert. Afturelding átti þó góðan lokakafla og vann sannfærandi 25-18 sigur. Afturelding vann leikinn þar með 3-0 og er meistari meistaranna í kvennaflokki árið 2021.

Úrvalsdeildir karla og kvenna

Nú þegar meistarakeppninni er lokið má hefja keppni í úrvalsdeildunum og það eru karlarnir sem byrja strax á föstudag. Þá mætast KA og Þróttur Fjarðabyggð á Akureyri en fleiri leikir fara svo fram í karladeildinni um helgina. Kvennadeildin hefst ekki fyrr en næsta miðvikudag með leik HK og Álftaness og fer deildin á fullt í kjölfarið.