[sam_zone id=1]

Meistaradeild karla heldur áfram

Undanúrslit Meistaradeildar karla hefjast í dag með fyrri leikjum beggja viðureigna.

Liðin fjögur sem komin eru í undanúrslitin eru Zaksa frá Póllandi, Trentino og Perugia frá Ítalíu og síðast en ekki síst Zenit Kazan frá Rússlandi. Zenit Kazan mætir Zaksa á heimavelli sínum í Kazan klukkan 16:00 í dag en Perugia og Trentino mætast klukkan 18:00 í Trento.

Zaksa – Zenit Kazan

Kazan höfðu betur gegn Skra Blechatow í 8-liða úrslitunum þar sem að þeir unnu báða leikina. Öllu meiri spenna var hjá Zaksa sem mætti Lube í 8-liða úrslitunum. Þar þurfti gullhrinu til að útkljá sigurvegara og vann Zaksa hana 16-14 gegn ítalska stórliðinu. Zaksa er líklegra til afreka en lið Kazan er þó afar öflugt og verður áhugavert að sjá hvernig miðjumenn Kazan, sem báðir eru afar stórir og stæðilegir, ráði við hratt spil Zaksa.

Earvin N’gapeth er ávallt í sviðsljósinu hjá sínum liðum og á það einnig við um Zenit Kazan. Hann fær þó mikla hjálp frá Bartosz Bednorz og Maxim Mikhailov. Mikhailov er gífurlega reynslumikill og hefur nú þegar unnið Meistaradeildina fimm sinnum á sínum ferli, alltaf með Zenit Kazan. Benjamin Toniutti, uppspilari Zaksa, hefur undanfarin ár gert andstæðingum Zaksa afar erfitt fyrir enda spilar liðið hraða bolta í allar stöður. Lukasz Kaczmarek er díó liðsins og mæðir mest á honum í sókninni en liðið treystir einnig á öfluga móttöku og vörn sem Pawel Zatorski stýrir.

Perugia – Trentino

Í hinni viðureign undanúrslitanna mætast ítölsku liðin Perugia og Trentino. Perugia lenti í miklum vandræðum gegn Modena í 8-liða úrslitunum en slapp með skrekkinn eftir gullhrinu. Trentino fór hins vegar nokkuð létt með Berlin í 8-liða úrslitunum. Gengi Perugia hefur verið nokkuð sveiflukennt undanfarið en ljóst er þó að liðið á fínustu möguleika í viðureigninni. Trentino sýndi miklar framfarir eftir erfiða byrjun í haust og hefur unnið 15 af 17 leikjum sínum eftir áramót.

Í liði Perugia hefur Wilfredo Leon verið algjör lykilmaður síðan hann kom frá Zenit Kazan. Trentino ætti þó að ráða ágætlega við hann með þá Simone Giannelli og Nimir Abdel-Aziz sem fá það verkefni að stilla upp hávörninni gegn Leon. Trentino er einnig með afar öfluga miðjumenn sem gætu gert gæfumuninn í því sem verða ábyggilega afar jafnir leikir liðanna.

Leikið er heima og að heiman, líkt og í 8-liða úrslitunum, en seinni leikir viðureignanna fara fram miðvikudaginn 24. mars. Hægt er að sjá leikina í beinni útsendingu á Eurovolley.tv en einnig sýnir CEV valda leiki á YouTube rás sinni.