[sam_zone id=1]

Meistaradeild karla hefst í dag

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hefst í karlaflokki í dag þegar leikið verður á Ítalíu.

Bestu karlalið Evrópu mæta til leiks í Meistaradeildinni á næstu dögum en keppni hefst í E-riðli í dag og stendur yfir til fimmtudags. Eins og í mörgum öðrum íþróttum var ákveðið að leika í svokölluðum búbblum í stað þess að dreifa leikjum yfir veturinn. Einungis verður leikið í E-riðli þessa vikuna en í riðlum A-C verður leikið dagana 8.-10. desember og í D-riðli 15.-17. desember.

Helmingur riðlakeppninnar fer fram í desember en seinni helmingur leikjanna verður í sams konar búbblum eftir áramót. Í hverjum riðli eru fjögur lið og hvert lið spilar því þrjá leiki í hvorri búbblu, þar sem að liðin mætast öll innbyrðis. Í dag mætast Trentino og Novosibirsk klukkan 15 að íslenskum tíma og í kjölfarið fer fram leikur Karlovarsko gegn Friedrichshafen.

Áhugavert verður að sjá hvernig Trentino stillir upp liði sínu í leikjum vikunnar en þeir voru án Simone Giannelli, aðaluppspilara liðsins, í síðasta deildarleik. Kórónuveirusmit hafa greinst innan liðsins síðustu daga og því er óljóst hvaða leikmenn eru tiltækir að þessu sinni.

Hér að neðan má sjá yfirlit yfir riðlana fimm, lið hvers riðils og hvar fyrri og seinni búbblur fara fram.

A-riðill – Leikið í Kedzierzyn Kozle og Belchatów

Zaksa Kedzierzyn-Kozle (Pólland) – PGE Skra Belchatów (Pólland) – Lindemans Aalst (Belgía) – Fenerbahce Istanbul (Tyrkland)

B-riðill – Leikið í Tours og Perugia

Cucine Lube Civitanova (Ítalía) – Sir Safety Perugia (Ítalía) – Arkas Izmir (Tyrkland) – Tours VB (Frakkland)

C-riðill – Leikið í Berlín og Kazan

Zenit Kazan (Rússland) – Jastrzebski Wegiel (Pólland) – Berlin Recycling Volleys (Þýskaland) – ACH Volley Ljubljana (Slóvenía)

D-riðill – Leikið í Roeselare og Modena

Leo Shoes Modena (Ítalía) – Kuzbass Kemerovo (Rússland) – Verva Warszawa Orlen Paliwa (Pólland) – Knack Roeselare (Belgía)

E-riðill – Leikið í Trento og Friedrichshafen

Trentino Itas (Ítalía) – Lokomotiv Novosibirsk (Rússland) – VfB Friedrichshafen (Þýskaland) – CEZ Karlovarsko (Tékkland)