[sam_zone id=1]

Mateo og Thelma best í Mizunodeildunum

Bestu leikmenn Mizunodeildanna 2019-20 samkvæmt Blakfréttum eru þau Miguel Mateo Castrillo og Thelma Dögg Grétarsdóttir.

Mizunodeild karla – Miguel Mateo Castrillo

Miguel Mateo Castrillo hefur verið öflugasti sóknarmaður Mizunodeildar karla síðan hann kom til landsins og Blakfréttir kusu hann einnig sem besta leikmanninn síðustu tvö tímabil. Hann hefur þar með verið valinn besti leikmaðurinn hjá Blakfréttum öll þrjú árin sem hann hefur leikið á Íslandi.

Mateo var stigahæsti leikmaður KA og jafnframt stigahæsti leikmaður deildarinnar. Hann skoraði alls 227 stig í deildarkeppninni og skoraði 5,54 stig í hverri hrinu að meðaltali. Mateo var valinn besti díó fyrri hluta tímabilsins í kjöri BLÍ en þar hafa leikmenn og þjálfarar deildarinnar atkvæðarétt. Þá var hann í liði ársins hjá BLÍ sem gert var opinbert í síðustu viku, sem og liði ársins hjá Blakfréttum.

Lið KA lauk keppni í 4. sæti Mizunodeildarinnar og hefði undir eðlilegum kringumstæðum tekið þátt í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Þá féll liðið úr leik í 8-liðum Kjörísbikarsins. Eins og frægt er tókst ekki að ljúka bikarkeppninni og Íslandsmótinu.

Mizunodeild kvenna – Thelma Dögg Grétarsdóttir

Thelma Dögg hefur leikið erlendis undanfarin tímabil. Hún hefur leikið í Liechtenstein, Sviss og Slóvakíu en sneri heim í Aftureldingu og lék allt tímabilið með uppeldisfélagi sínu í Mosfellsbæ. Thelma var aðalvopn Aftureldingar í vetur og var stigahæsti leikmaður deildarinnar með 269 stig, 30 stigum á undan Helenu Kristínu Gunnarsdóttur.

Thelma Dögg var á dögunum valin í lið ársins í fyrrnefndu kjöri á vegum BLÍ og þá var hún einnig í liði ársins hjá Blakfréttum.

Afturelding lauk keppni í 2. sæti Mizunodeildar kvenna auk þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Kjörísbikarsins. Lið Aftureldingar og KA voru áberandi sterkust í vetur og áttu Thelma og liðsfélagar hennar góða möguleika á verðlaunum í bikarkeppninni og Íslandsmótinu.