[sam_zone id=1]

Marienlyst vann Nordenskov í spennandi leik

Ævarr Freyr Birgisson og félagar hans í Boldklubben Marienlyst mættu í dag Nordenskov Ungdoms- og IF í dönsku úrvalsdeildinni.

Marienlyst hófu leikinn af miklum krafti og voru 9-2 yfir. Undir miðja hrinu byrjuðu Nordenskov hins vegar að minnka muninn og það var jafnt í stöðunni 24-24. Marienlyst skoruðu síðustu tvö stig hrinunnar og unnu hana 26-24.

Marienlyst endurtóku leikinn frá því í fyrstu hrinunni í upphafi þeirrar annarrar og tóku fljótt forystu. Þeir héldu áfram að bæta forskotið og unnu hrinuna að lokum 25-11.

Þriðja hrinan var mjög jöfn og tókst hvorugu liðinu að slíta sig frá hinu. Nordenskov skoruðu síðustu tvö stig hrinunnar eftir að jafnt hafði verið í 23-23 og unnu hana 23-25.

Nordenskov hóf fjórðu hrinuna vel og voru 6-9 yfir. Marienlyst minnkuðu muninn hins vegar og komust þremur stigum yfir í stöðunni 16-13. Marienlyst hélt forystunni til enda og unnu hana 25-23 og leikinn þar með 3-1.

Ævarr Freyr var frelsingi í leiknum í dag og átti ágætis leik. Hann var með 26 móttökur og voru 58% þeirra jákvæðar og 27% fullkomnar.

Marienlyst er nú jafnt Gentofte í efsta sæti deildarinnar með 32 stig eftir 14 leiki en Gentofte á þrjá leiki til góða. Næsti leikur Marienlyst er á fimmtudaginn gegn VK Vestsjælland en þeir eru í fjórða sæti deildarinnar svo það ætti að verða spennandi leikur.