[sam_zone id=1]

Marienlyst unnu Nordenskov á heimavelli

Boldklubben Marienlyst, lið Galdurs Mána Davíðssonar og Ævarrs Freys Birgissonar, fengu Nordenskov Ungdoms- og IF í heimsókn í gær í dönsku úrvalsdeildinni.

Marienlyst 2019-2020

Eftir frekar slakt gengi undanfarið þurftu Marienlyst nauðsynlega á sigri að halda til að halda sér í baráttunni um eitt af fjórum efstu sætum deildarinnar. Liðin höfðu mæst einu sinni áður í vetur og báru Nordenskov sigur úr býtum í þeim leik, 3-2.

Marienlyst hófu leikinn mjög vel og unnu fyrstu hrinuna 25-19 þar sem þeir gerðu afar fá mistök. Þeir hleyptu Nordenskov aftur inn í leikinn með því að gera of mörg mistök í annarri hrinunni. Nordenskov unnu hrinuna 22-25 og leikurinn því orðinn jafn. Þriðja hrinan var nokkuð jöfn framan af en Marienlyst tókst að slíta sig frá Nordenskov undir lokin og vinna 25-20. Eftir það var engin spurning hvort liðið ætlaði sér sigurinn meira en Marienlyst unnu fjórðu hrinuna sannfærandi, 25-14 og leikinn þar með 3-1.

Galdur Máni kom ekki við sögu í leiknum en Ævarr Freyr spilaði hann allan. Hann átti flottan leik þar sem hann skoraði 12 stig og var með 69% jákvæða móttöku.

Marienlyst eru jafnir VK Vestsjælland í 3.-4. sæti deildarinnar eftir leikinn og eiga eftir að leika tvo leiki fyrir jól en þeir eru annars vegar gegn Aalborg 12. desember og hins vegar Hvidovre 20. desember.