[sam_zone id=1]

Marienlyst-Fortuna unnu íslendingaslaginn í Danmörku

Það var sannkallaður íslendingaslagur í úrvalsdeildinni í Danmörku í kvöld þar sem Marienlyst-Fortuna og Hvidovre VK mættust. Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson leika með Marienlyst-Fortuna og Máni Matthíasson með Hvidovre. Þetta var fyrsti leikur tímabilsins hjá báðum liðum og leikmenn því spenntir að sjá hvar þeir standa eftir sumarfríið.

Heimamenn í Marienlyst-Fortuna hófu leikinn af krafti og komust fljótt í gott forskot, en Hvidovre voru ekki lengi að minnka það og komust yfir um miðja fyrstu hrinu. Eftir gríðarlega spennandi lokakafla þar sem Hvidovre áttu tvisvar möguleika á að vinna hrinuna, unnu Marienlyst-Fortuna 27-25.

Næstu tvær hrinur voru ekki eins spennandi og sú fyrsta og var sterkur sóknarleikur Marienlyst-Fortuna of mikið fyrir Hvidovre. Annarri hrinu lauk 25-14 og þeirri þriðju 25-17, Marienlyst-Fortuna í vil.

Galdur og Ævarr áttu báðir ágætis leik hjá Marienlyst-Fortuna. Galdur skoraði 3 stig, þar af tvö úr hávörn og eitt úr uppgjöf og Ævarr skoraði 16 stig, 15 úr sókn og eitt úr uppgjöf.

Máni dreifði spilinu úr uppspilarastöðunni hjá Hvidovre megnið af leiknum og átti einnig ágætis leik.