[sam_zone id=1]

Marienlyst einum sigri frá sæti í úrslitum

Boldklubben Marienlyst, félag Galdurs Mána Davíðssonar og Ævarrs Freys Birgissonar, mætti Middelfart VK í þriðja undanúrslitaleik dönsku úrvalsdeildarinnar í gær.

Liðin höfðu skipt með sér 3-0 sigrum í fyrstu tveimur leikjunum en Middelfart léku án síns besta leikmanns, Irvan Brar, í gær vegna meiðsla sem hann varð fyrir í öðrum leik liðanna á fimmtudaginn.

Fyrstu tveir leikirnir einkenndust af að Middelfart hóf leikina töluvert betur en Marienlyst og það varð engin breyting á því í gær. Þeir komust 5-8 yfir áður en Marienlyst skoruðu 9 stig í röð þökk sé sterkum uppgjöfum og hávörnum. Marienlyst sigldu þægilegum 25-20 sigri í höfn í fyrstu hrinu.

Í annarri hrinunni voru það Marienyst sem byrjuðu betur og náðu góðu forskoti strax frá upphafi. Þeir héldu forskotinu þar til um miðja hrinu en Middelfart tókst að jafna í stöðunni 16-16 og aftur í 23-23. Marienlyst skoruðu síðustu tvö stigin og unnu hrinuna 25-23.

Marienlyst áttu erfitt uppdráttar í þriðju hrinunni og áttu erfitt með að finna leiðir fram hjá hávörn Middelfart. Hrinan varð aldrei spennandi og unnu Middelfart hana 18-25.

Í fjórðu hrinunni snerist dæmið hins vegar við og voru Marienlyst nokkrum skrefum á undan alla hrinuna. Hrinunni lauk með 25-18 sigri Marienlyst og unnu þeir leikinn því 3-1.

Galdur Máni kom ekki við sögu í leiknum en Ævarr Freyr Birgisson lék hann allan og skoraði 9 stig, þar af 4 úr hávörn.

Næsti leikur liðanna er næstkomandi fimmtudag og getur Marienlyst tryggt sér sæti í úrslitarimmunni við Gentofte Volley með sigri í honum.