[sam_zone id=1]

Máni í byrjunarliði Bliesen í fyrsta sinn

Máni Matthíasson og félagar hans í TV Bliesen léku í dag heimaleik gegn Leipzig í 2. deild Þýskalands.

Lið Bliesen leikur í suðurhluta 2. deildar í Þýskalandi og lék sinn fyrsta leik fyrir tveimur vikum þegar liðið mætti Gotha. Þeim leik tapaði liðið 1-3 á heimavelli og lék Máni tvær hrinur í leiknum. Bliesen er nýkomið í 2. deildina eftir að hafa gengið frábærlega síðasta vetur og verður því fróðlegt að sjá hvernig liðinu gengur í þessari sterku deild í Þýskalandi.

Í dag mætti liðið hins vegar Leipzig sem voru um miðja deild á síðasta tímabili. Máni var í byrjunarliði Bliesen í dag en það voru gestirnir frá Leipzig sem unnu fyrstu hrinuna 22-25 eftir mikla baráttu. Heimamönnum í Bliesen gekk ekki nógu vel í þeirri næstu og gerði Burkhard Disch, þjálfari Bliesen og karlalandsliðs Íslands, nokkrar breytingar á liðinu eftir aðra hrinuna, sem tapaðist 17-25. Eftir að hafa verið undir þar náði Bliesen að kreista fram sigur í þriðju hrinunni, 25-22 og Leipzig leiddi 1-2.

Fjórða hrina var jöfn allan tímann en Leipzig hafði þó nauma forystu stærstan hluta hennar. Gestirnir reyndust svo sterkari undir lokin og unnu fjórðu hrinuna 22-25 og leikinn þar með 1-3. Hinn 18 ára Aaron Neumann átti frábæra innkomu í þriðju hrinunni og var valinn maður leiksins úr liði Bliesen. Næsti leikur Bliesen verður á útivelli gegn Mühldorf en þeir hafa unnið einn leik og tapað einum á tímabilinu. Leikurinn fer fram laugardaginn 3. október næstkomandi.