[sam_zone id=1]

Lube vann Perugia í B-riðlinum

Í vikunni fóru fjölmargir leikir fram í Meistaradeild karla en leikið var í þremur af riðlunum fimm.

Keppni fór fram í riðlum A, B og C þessa vikuna en leikið verður í D-riðli í næstu viku. Þá fór fyrri hluti E-riðils fram í síðustu viku. Pólska toppliðið, Zaksa Kedzierzyn-Kozle, var gestgjafi A-riðils og byrjaði vikuna á öruggum 3-0 sigri gegn Belchatów, hinu pólska liðinu í riðlinum. Zaksa er greinilega sterkasta lið riðilsins en lið Fenerbahce og Lindemans Aalst voru þeim engin fyrirstaða. Belchatów vann einnig sína leiki gegn þeim og pólsku liðin berjast því um toppsæti riðilsins, þrátt fyrir að Zaksa séu mun sigurstranglegri í dag.

Í B-riðli dró tyrkneska liðið Arkas Izmir sig úr keppni vegna vandamála tengdum Covid-19 í heimalandinu. Hin lið riðilsins fá því 3-0 sigra gegn liði Izmir og léku tvo leiki hvert þessa vikuna. Ítölsku stórliðin Lube og Perugia leika í riðlinum og fyrirfram var talið að þau myndu fara létt með Tours og Izmir en eiga spennandi leiki innbyrðis. Leikur þeirra stóð undir væntingum og var hnífjafn og spennandi. Lube unnu leikinn 3-1 og náðu einnig í 3-0 sigur gegn Tours. Þeir eru því á toppi riðilsins með fullt hús stiga.

Þriðji riðillinn sem spilað var í þessa vikuna, C-riðill, fór fram í Berlín og þar var meðal annars að finna lið Zenit Kazan. Rússneska stórliðið vann Meistaradeildina fjórum sinnum í röð árin 2015-2018 með Wilfredo Leon í fararbroddi áður en hann skipti yfir til Perugia á Ítalíu. Í riðlinum er einnig lið Jastrzebski frá Póllandi en liðið þurfti, líkt og Arkas Izmir, að gefa leiki vikunnar vegna vandamála sem tengdust Covid-19 faraldrinum. Í C-riðli léku því einungis þrjú lið þessa vikuna en það voru Zenit, Berlin og ACH Ljubljana.

Heimamenn í Berlin Recycling Volleys byrjuðu vikuna vel með 3-0 sigri gegn Ljubljana í hnífjöfnum leik en mættu svo Zenit Kazan á keppnisdegi tvö. Þeir rússnesku höfðu þar nokkuð þægilegan sigur eins og við var að búast. Leikur Zenit gegn Ljubljana var svo stórkemmtilegur og vann Zenit Kazan 3-1 eftir æsispennu. Rússneska liðið er því með fullt hús stiga og í góðri stöðu fyrir næstu leiki.

Þá er fyrri helming riðlakeppninnar nánast lokið en leikið verður í D-riðli í næstu viku. Keppni þar mun fara fram í Roeselare, Belgíu, og auk heimaliðs Knack Roeselare eru þar lið Kuzbass Kemerovo frá Rússlandi, Verva Warszawa frá Póllandi og Leo Shoes Modena frá Ítalíu. Hinn stórskemmtilegi Ivan Zaytsev mætir sínum gömlu félögum í Modena í fyrsta leik vikunnar en hann leikur nú með Kuzbass Kemerovo.

A-riðill (Kedzierzyn-Kozle)

Lindemans Aalst 2-3 Fenerbahce Istanbul (25-20, 22-25, 21-25, 25-17, 9-15). Jakub Rybicki var stigahæstur í liði Aalst en hann skoraði alls 24 stig, þar af 7 úr hávörn. Salvador Hidalgo Oliva var atkvæðamestur í liði Fenerbahce með 23 stig.

PGE Skra Belchatów 0-3 Zaksa Kedzierzyn-Kozle (21-25, 19-25, 19-25). Milad Ebadipour var stigahæstur í liði Belchatów með 15 stig en Lukasz Kaczmarek skoraði 17 stig fyrir Zaksa.

Lindemans Aalst 0-3 Belchatów (16-25, 17-25, 16-25). Matej Smidl og Jakub Rybicki skoruðu 9 stig hvor í liði Aalst en hjá Belchatów var Dusan Petkovic stigahæstur með 13 stig.

Fenerbahce 0-3 Zaksa (21-25, 20-25, 13-25). Salvador Hidalgo Oliva og Metin Toy skoruðu 11 stig hvor fyrir Fenerbahce. Í liði Zaksa voru Lukasz Kaczmarek og Aleksander Sliwka stigahæstir með 10 stig hvor.

Fenerbahce 1-3 Belchatów (18-25, 21-25, 25-23, 21-25). Metin Toy og Salvador Hidalgo Oliva sáu enn og aftur um stigaskorunina hjá Fenerbahce en Toy skoraði 17 stig og Oliva bætti við 15 stigum. Hjá Belchatów skoruðu Bartosz Filipiak og Milad Ebadipour 20 stig hvor.

Zaksa 3-0 Lindemans Aalst (25-19, 25-19, 25-17). Jakub Kochanowski skoraði 13 stig fyrir Zaksa en Francois Lecat var stigahæstur hjá Aalst með 9 stig.

B-riðill (Tours)

Cucine Lube Civitanova 3-1 Sir Safety Perugia (25-22, 22-25, 25-20, 25-23). Yoandy Leal fór fyrir liði Lube í stigaskorun og skoraði alls 23 stig. Wilfredo Leon var skammt undan en hann skoraði 20 stig fyrir Perugia.

Tours VB 0-3 Lube (21-25, 23-25, 23-25). Zouheir El Graoui var stigahæstur í liði Tours með 11 stig. Hjá Lube skoraði fyrirliðinn Osmany Juantorena 21 stig og Kamil Rychlicki bætti við 12 stigum.

Perugia 3-0 Tours (25-19, 25-22, 25-22). Wilfredo Leon var stigahæstur í liði Perugia með 17 stig en Zouheir El Graoui skoraði 11 stig fyrir Tours.

C-riðill (Berlin)

ACH Volley Ljubljana 0-3 Berlin Recycling Volleys (20-25, 23-25, 21-25). Bozidar Vucicevic var allt í öllu hjá Ljubljana en hann skoraði 17 stig í leiknum. Hjá heimamönnum í Berlin var Benjamin Patch stigahæstur með 16 stig.

Berlin 0-3 Zenit Kazan (21-25, 19-25, 18-25). Timothée Carle og Cody Kessel skoruðu 9 stig hvor fyrir Berlin en Maxim Mikhailov var stigahæstur hjá Kazan með 14 stig.

Kazan 3-1 Ljubljana (25-16, 19-25, 25-23, 28-26). Maxim Mikhailov var stigahæstur hjá Kazan með 20 stig en Mitar Tzourits átti flottan leik fyrir Ljubljana og skoraði 21 stig.