[sam_zone id=1]

Lokamót sumarsins hjá Jónu og Thelmu

Þrátt fyrir að lítið sé um að vera í strandblakinu hér á Íslandi um þessar mundir er enn nóg um að vera úti í heimi.

Thelma Dögg Grétarsdóttir og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir léku saman á nokkrum mótum í sumar og nú um helgina tóku þær þátt í síðasta móti sínu þetta strandblakssumarið. Mótið fer fram í hollensku borginni Apeldoorn en Thelma og Jóna fengu beinan þátttökurétt í meginhluta mótsins (Main Draw). Það þýddi að þær spiluðu að minnsta kosti tvo leiki á föstudag og fleiri seinna um helgina ef vel myndi ganga.

Snemma á föstudagsmorgun mættu þær svissneska liðinu Betschart/Stähli sem voru nokkuð hátt skrifaðar fyrir upphaf mótsins. Svissneska liðið vann 2-0 sigur (21-14, 21-13) og íslensku stelpurnar þurftu því nauðsynlega á sigri að halda í seinni leik dagsins. Þar var mótherjinn Ceynowa/Kielak frá Póllandi. Þær voru skráðar sem þriðja stigahæsta liðið í mótinu og því ljóst að Thelmu og Jónu biði afar erfitt verkefni.

Eins og við var að búast voru þær pólsku ansi sterkar og unnu leikinn gegn Jónu og Thelmu 2-0 (21-15, 21-14). Þær hafa því lokið keppni á mótinu og jafnframt lokið keppnistímabilinu í strandblakinu. Þær halda nú áfram í inniblaki með sínum liðum og koma vonandi enn sterkari til leiks næsta sumar.