[sam_zone id=1]

Lítil spenna í þremur leikjum kvöldsins

Þrír leikir fóru fram í úrvalsdeildum karla og kvenna í kvöld en það voru hörkuleikir á dagskrá í bæði karla- og kvennaflokki.

Tveir af leikjum kvöldsins voru í kvennadeildinni en á Álftanesi mættust Álftanes og Völsungur. Álftanes var líklegri aðilinn fyrir fram en Völsungur er nýliði í úrvalsdeildinni og að berjast fyrir sínum fyrstu stigum í deildinni. Þá mættust KA og HK á Akureyri en bæði lið unnu fyrstu leiki sína. Karlamegin fékk Hamar lið Aftureldingar í heimsókn.

Úrvalsdeild kvenna

Álftanes – Völsungur

Lið Álftnesinga hóf tímabilið með 2-3 tapi gegn HK en lék þó vel á köflum í þeim leik. Völsungur mætti Íslandsmeisturum Aftureldingar í sínum fyrsta leik og áttu aldrei möguleika gegn sterku liði Mosfellinga. Ekki byrjaði leikurinn í kvöld betur hjá Völsungi en Álftanes hafði mikla yfirburði í fyrstu hrinu og vann öruggan 25-8 sigur. Önnur hrina leiksins varð hins vegar afar spennandi og þar vöknuðu gestirnir til lífsins.

Völsungur hafði yfirhöndina stærstan hluta annarrar hrinu og leiddu mest með fimm stigum í stöðunni 14-19. Álftnesingar áttu hins vegar frábæran lokakafla og sneru taflinu við. Álftanes vann hrinuna 25-23 og leiddi 2-0. Þriðja hrinan var líkari þeirri fyrstu þar sem að Álftanes vann þægilegan 25-11 sigur og tryggði sér þar með öruggan 3-0 sigur.

Næsti leikur Álftnesinga verður á útivelli gegn Aftureldingu þann 6. október. Völsungur átti að mæta Þrótti Reykjavík tvívegis snemma í október en þeim leikjum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Eins og leikjaplanið stendur í dag verður næsti leikur liðsins því annar leikur gegn Álftanesi þann 10. nóvember, þá á Húsavík. Gangi þetta eftir spilar liðið því engan leik í október en það gæti hæglega breyst ef leikjum verður hliðrað til.

KA – HK

Lið KA og HK eru nokkuð mikið breytt frá því á síðasta tímabili en náðu þó bæði í sigra í fyrstu deildarleikjum sínum. Erfitt var að segja til um hvort liðið væri líklegra til afreka en þó hafa leikir liðanna iðulega verið spennandi og skemmtilegir áhorfs. KA byrjaði leikinn í kvöld frábærlega og virtist ætla að valta yfir gestina. HK náði hins vegar að minnka muninn töluvert en það kom ekki í veg fyrir að KA vann fyrstu hrinuna 25-20.

Önnur hrina var mun jafnari en KA var yfirleitt skrefinu á undan. HK náði ekki að snúa því við og KA vann aftur, nú 25-22. Svipað var uppi á teningnum í þriðju hrinu leiksins en eftir miðbik hrinunnar seig KA fram úr og vann að lokum sannfærandi 25-19 sigur og tryggði 3-0 sigur í leiknum. KA hefur því unnið fyrstu tvo leiki sína og mætir næst liði Þróttar Fjarðabyggð sunnudaginn 3. október. HK mætir Aftureldingu á laugardag og Þrótti Reykjavík strax á þriðjudag.

Stigahæst í liði KA var Paula Del Olmo Gomez með 19 stig en næst kom Nera Mateljan með 10 stig. Hjá HK skoruðu þær Líney Inga Guðmundsdóttir og Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal 7 stig hvor.

Úrvalsdeild karla

Hamar – Afturelding

Stórlið Hamars er liðið sem allir vilja vinna en liðið fór taplaust í gegnum tímabilið 2020/21 og vann alla mögulega titla. Afturelding var eina liðið sem vann hrinu gegn Hvergerðingum á tímabilinu og því fróðlegt að sjá hvað Afturelding gæti gert í þessum leik. Ekki byrjaði leikurinn þó vel hjá gestunum úr Mosfellsbæ en Hamar byggði smám saman upp þægilegt forskot í fyrstu hrinunni. Hvergerðingar unnu sannfærandi 25-18 sigur og leiddu 1-0.

Ekki skánaði það í annarri hrinu og Hamar náði strax afgerandi forystu. Hamar vann aðra hrinu 25-14 og virtist hafa góð tök á leiknum. Afturelding gerði betur í þriðju hrinunni en náði aldrei forystunni. Hamar var skammt á undan en sigldi heim 25-20 sigri. Hamar vann leikinn því 3-0 og heldur áfram að gera það gott í úrvalsdeildinni. Næsti leikur Hamars verður á Ísafirði næsta laugardag þegar liðið mætir Vestra. Afturelding fær Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn sama dag.