[sam_zone id=1]

Lejla Sara heldur til Sviss

Enn fjölgar íslenskum leikmönnum erlendis í blakinu en á næsta tímabili mun Ísland eiga fulltrúa í svissnesku deildinni.

Lejla Sara Hadziredzepovic hefur gert fimm ára samning við Volero frá Zurich en liðið leikur í efstu deild í Sviss. Volero er afar öflugt félag og mun einnig taka þátt í CEV Cup á næsta tímabili. Lejla hefur leikið með liði HK hér á Íslandi og vann með þeim Kjörísbikarinn og Mizunodeildina auk þess sem liðið fékk silfurverðlaun í úrslitakeppninni eftir æsispennandi einvígi við Aftureldingu.

Lejla Sara er 16 ára gömul og leikur sem díó en hún gerir langtíma samning við lið Volero og ætti að geta lært af öflugum og reynslumiklum leikmönnum liðsins. Hún æfði með liðinu fyrr í sumar og stóð sig vel þessar tvær vikur sem hún fékk að spreyta sig með hópnum. Blakfréttir óska Lejlu til hamingju með nýja samninginn og verður vafalaust áhugavert að fylgjast með framförum hennar með stórliði Volero.