[sam_zone id=1]

Leikmenn og starfsmenn blakdeildar Aftureldingar í sóttkví

Leikmenn, þjálfarar og aðrir starfsmenn blakdeildar Aftureldingar eru nú í sóttkví eftir að upp kom smit eftir leik liðsins í 1.deild kvenna síðastliðið miðvikudagskvöld.

Eftir leik Aftureldingar B og Aftureldingar X í 1.deild kvenna síðasta miðvikudag kom í ljós að einn leikmaður leiksins var sýktur af Covid-19 veirunni og voru í kjölfarið allir þátttakendur leiksins settir í sóttkví. Leikmenn beggja liða, þjálfarar, starfsmenn og dómarar leiksins eru því í sóttkví eins og reglur gera ráð fyrir.

Engin af öðrum þáttakendum leiksins sýnir einkenni um smit enn sem komið er og virðist sá smitaði vera með væg einkenni.

Guðrún Kristín Einarsdóttir formaður blakdeildar Aftureldingar segir að búið sé að gera ráðstafanir til að loka íþróttamiðstöðinni að Varmá og sótthreinsa húsið hátt og lágt í öryggisskyni en smitleiðin sem viðkomandi leikmaður fékk smitið í sig er ekki  þekkt þar sem engin tengsl voru við aðra smitaða eða aðra í sóttkví.