[sam_zone id=1]

Leikið þétt á Rimini

Bestu landslið heims, bæði í kvenna- og karlaflokki, leika þessa dagana í Þjóðadeildinni á Rimini.

Þjóðadeildin (Volleyball Nations League / VNL) var sett á laggirnar árið 2019 og kom þá í stað Heimsdeildarinnar (World League). Bestu landslið heims koma saman á mótinu en þar sem að leikið er afar þétt á mótinu hafa þátttökuþjóðirnar sent marga nýja leikmenn til leiks og gefið ungum og upprennandi leikmönnum tækifæri. Þetta árið munu Ólympíuleikarnir auðvitað fara fram og því hafa sumar þjóðir ákveðið að hvíla stórstjörnur sínar að einhverju leyti.

Mótið er þó gríðarlega skemmtilegt áhorfs enda margir leikir sem fara fram í hverri viku. Vegna heimsfaraldursins er keppnin haldin á einum stað þetta árið og fara allir leikir fram á Rimini á Ítalíu. Alls taka 32 lið þátt í mótinu, 16 í karlaflokki og 16 í kvennaflokki.  Hvert lið spilar 15 leiki á fimm leikvikum, eða einn leik gegn hverjum andstæðing. Karladeildin og kvennadeildin skiptast á en spilað er í þrjá daga í röð í hvorri deild fyrir sig. Öll liðin spila þessa þrjá daga í röð og er þetta endurtekið í fimm leikvikur í hvorum flokki.

Kvennadeildin hófst þann 25. maí síðastliðinn og lýkur henni með úrslitaleik þann 25. júní. Karladeildin hófst þann 28. maí og fer úrslitaleikurinn fram 27. júní. Frá og með deginum í dag til 23. júní fara fram 8 leikir á dag, hvern einasta dag. Það er því nóg af leikjum til að fylgjast með en eins og áður sagði skiptast karla- og kvennaflokkur á og taka þriggja daga skorpur.

Heimasíðu deildarinnar má finna með því að smella hér en þar má nálgast helstu upplýsingar um leikjaplan og stöðuna í deildunum. Hægt er að fylgjast með mótinu á streymissíðu FIVB, Volleyball World TV.