[sam_zone id=1]

Leik lokið í Búlgaríu

Íslensku strandblaksliðin hafa bæði lokið keppni á World Tour mótinu í Búlgaríu eftir einn leik hjá hvoru liði.

Það var nóg um að vera hjá Íslendingunum í Búlgaríu um helgina en Ísland átti tvö lið í alþjóðlegu móti þar. Thelma Dögg Grétarsdóttir og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir léku á fimmtudag en þær tóku þátt í undankeppni mótsins. Þar töpuðu þær gegn liði frá Slóveníu og komust ekki inn í meginhluta mótsins. Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir fengu hins vegar beinan þátttökurétt í meginhlutanum og þær mættu eistnesku pari í morgun.

Berglind og Elísabet léku gegn Hollas/Soomets frá Eistlandi og byrjuðu leikinn af krafti. Um miðja hrinu náðu þær eistnesku að jafna leikinn og þær sigu smám saman fram úr í seinni hluta hrinunnar. Að lokum unnu þær hrinuna 21-13 eftir öflugan kafla og róðurinn orðinn þungur fyrir íslensku stelpurnar. Hollas og Soomets héldu áfram að þjarma að Berglindi og Elísabetu í annarri hrinu sem þær unnu 21-12 og leikinn þar með 2-0.

Berglind og Elísabet áttu að spila annan leik en þurftu því miður að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Þær hafa því lokið keppni að þessu sinni líkt og Thelma og Jóna.