[sam_zone id=1]

Komið að úrslitunum í strandblakinu

Undanúrslitaleikirnir í strandblakinu fóru fram í dag en úrslitin ráðast á næstu tveimur dögum.

Keppni í strandblaki er langt komin og í dag fóru undanúrslitaleikirnir fram bæði karla- og kvennamegin. Leikir 8-liða úrslitanna voru langflestir hnífjafnir og því von á mikilli spennu í undanúrslitunum. Leikirnir voru þó ekki eins jafnir og búist var við og fór enginn þeirra í oddahrinu.

Undanúrslit kvenna

Konurnar hófu keppni snemma í Tókýó en leikið var á miðnætti að íslenskum tíma. Kvennaleikirnir voru í beinni útsendingu á RÚV sem var afar ánægjulegt. Í fyrri leiknum mættu Anouk Vergé-Dépré og Johanna Heidrich frá Sviss þeim Alix Klineman og April Ross frá Bandaríkjunum. Ross og Klineman hafa litið gríðarlega vel út á mótinu og þær fóru létt með svissneska liðið. Fyrri hrinunni lauk með 21-12 sigri þeirra bandarísku og þær unnu aðra hrinuna 21-11.

Svissneska liðið er langt frá því að vera slakt en átti ekki góðan dag. Það er hins vegar einkennismerki öflugra liða að láta andstæðinga sína líta verr út en þeir gera gegn jafningjum og það var það sem gerðist í dag. Bandaríkin eiga því lið í úrslitaleiknum aftur eftir að hafa þurft að sætta sig við bronsverðlaun árið 2016. Árin 2004, 2008 og 2012 fóru gullverðlaunin kvennamegin alltaf til Bandaríkjanna en það voru þær Kerri Walsh Jennings og Misty May-Treanor sem sópuðu til sín gullverðlaunum þessi ár.

Hinn undanúrslitaleikurinn bauð upp á meiri spennu en þar mættu Anastasija Kravcenoka og Tina Graudina frá Lettlandi þeim Taliqua Clancy og Mariafe Artacho del Solar frá Ástralíu. Þær áströlsku unnu ríkjandi heimsmeistara Pavan/Melissa í 8-liða úrslitunum og hafa litið frábærlega út allt mótið. Þær lettnesku hafa sömuleiðis gert afar vel og unnu Bansley/Wilkerson sem höfðu slegið út sterkt bandarískt lið í 16-liða úrslitum. Fyrsta hrina leiksins var æsispennandi en það voru þær áströlsku sem unnu hana 23-21 og leiddu 1-0.

Seinni hrinan náði ekki sömu hæðum og sú fyrri en þar fóru Clancy og Solar létt með Lettana og unnu auðveldan 21-13 sigur. Ástralía á því lið í úrslitum strandblaksins í fyrsta sinn síðan á heimavelli árið 2000 þegar Natalie Cook og Kerri Pottharst urðu Ólympíumeistarar.

Úrslit / Brons kvenna – Aðfaranótt föstudags

Bronsleikur 1:00    Graudina/Kravcenoka – Vergé-Dépré/Heidrich

Úrslitaleikur 2:30    Artacho del Solar/Clancy – Klineman/Ross

Undanúrslit karla

Í fyrri undanúrslitaleiknum karlamegin mættu Mol og Sorum frá Noregi þeim Plavins og Tocs frá Lettlandi. Norðmennirnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og unnu fyrstu hrinu auðveldlega, 21-15. Anders Mol gerði þeim lettnesku afar erfitt fyrir og skoraði alls 5 stig beint úr hávörn í fyrstu hrinunni. Plavins/Tocs reyndu að setja Christian Sørum undir pressu í leiknum en öll önnur lið mótsins hafa einbeitt sér að Mol og reynt að þvinga hann til að gera mistök. Sørum var hins vegar afar öruggur og skilaði sínu frábærlega.

Plavins/Tocs gekk mun betur í upphafi annarrar hrinu en Norðmennirnir leiddu þó framan af. Jafnræði var með liðunum þangað til um miðbik hrinunnar en þá náðu þeir norsku að slíta Lettana frá sér. Þeir sigldu svo tiltölulega þægilegum 21-16 sigri í höfn en þeir Mol og Sørum eru því komnir í úrslit á sínum fyrstu Ólympíuleikum.

Í seinni karlaleiknum voru ríkjandi heimsmeistarar mættir til leiks, þeir Oleg Stoyanovskiy og Viacheslav Krasilnikov sem keppa fyrir hönd rússnesku Ólympíunefndarinnar. Þeir mættu Cherif Samba og Ahmed Tijan frá Katar sem hafa átt frábært mót og slógu út silfurverðlaunahafana frá Ríó 2016 í 8-liða úrslitunum. Stoyanovskiy og Krasilnikov höfðu yfirhöndina framan af fyrstu hrinu en um miðbik hrinunnar var allt orðið hnífjafnt. Lokakaflinn var algjörlega frábær en að lokum unnu þeir rússnesku 21-19 sigur. Þeir leiddu því 1-0 í æsispennandi leik.

Seini hrinan bauð einnig upp á mikla skemmtun en þar reyndust Stoyanovskiy og Krasilnikov sterkari á lokakaflanum og unnu 21-17. Þeir unnu leikinn því 2-0 og eru á leið í úrslitaleikinn. Krasilnikov þurfti að sætta sig við 4. sæti í Ríó árið 2016 en hefur nú tryggt sæti sitt á verðlaunapalli þessa Ólympíuleikana. Cherif og Ahmed hafa átt frábært mót og eiga þeir flotta möguleika gegn Plavins og Tocs í bronsleiknum.

Úrslit / Brons karla – Aðfaranótt laugardags

Bronsleikur 01:00    Plavins/Tocs – Cherif/Ahmed

Úrslitaleikur 2:30    Mol/Sørum – Krasilnikov/Stoyanovskiy