[sam_zone id=1]

KA vann toppslaginn

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeildunum í kvöld þegar leikið var í bæði karla- og kvennaflokki.

Karlaleikur kvöldsins var viðureign Hamars og Fylkis en Hamarsmenn hafa farið afar vel af stað líkt og á síðasta tímabili en þeir eru með níu stig af níu mögulegum. Fylkir hefur unnið einn af þremur leikjum sínum en þurfti á góðri frammistöðu að halda til að veita Hvergerðingum alvöru mótspyrnu. Kvennamegin mættust topplið Aftureldingar og KA en bæði lið hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa og eru með fullt hús stiga.

Úrvalsdeild karla

Hamar byrjaði vel en fljótlega í fyrstu hrinu voru Fylkismenn komnir með nokkurra stiga forystu. Hvergerðingar sneru dæminu þó aftur við og unnu fyrstu hrinu sannfærandi, 25-18. Spennan var öllu minni í annarri hrinunni þar sem að Hamar leiddi frá upphafi og vann 25-15. Þriðju hrinuna unnu Hamarsmenn sömuleiðis auðveldlega, 25-14, og vann leikinn þar með 3-0.

Wiktor Mielczarek var stigahæstur í liði Hamars með 12 stig en Alexander Stefánsson skoraði 7 stig fyrir Fylki.

Nú verður gert hlé á úrvalsdeildum karla og kvenna vegna verkefna U-19 og U-17 landsliða Íslands. Næsti leikur Hamars verður á útivelli gegn Þrótti Fjarðabyggð þann 5. nóvember en sama dag mæta Fylkismenn liði Vestra í Árbænum.

Úrvalsdeild kvenna

Stórleikur Aftureldingar og KA hófst með látum og virtist fyrsta hrinan aldrei ætla að enda. Að lokum vann KA 29-31 sigur í hrinunni og leiddi leikinn 0-1 í Mosfellsbænum. KA hélt áfram að gera vel og var skrefinu á undan framan af annarri hrinu. Afturelding náði yfirhöndinni um miðja hrinu en góður lokakafli KA tryggði gestunum 20-25 sigur og þar með 0-2 forystu í leiknum.

Afturelding gerði afar vel í byrjun þriðju hrinu enda allt undir hjá heimakonum. Þær náðu 5-0 forystu og leiddu allt fram að lokum hrinunnar þegar KA náði að jafna leikinn. Enn var KA sterkari aðilinn á lokakafla hrinunnar og vann KA 25-27 sigur og tryggði sér þar með 0-3 sigur í leiknum. KA fer því á topp deildarinnar með 12 stig eftir fjóra leiki. Afturelding er enn með 9 stig og hefur einnig spilað fjóra leiki.

Eins og áður kom fram verður nú gert hlé á úrvalsdeildunum en næsti leikur Aftureldingar fer fram þann 12. nóvember þegar liðið fær Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn. KA mætir Álftanesi þann 14. nóvember og fer sá leikur fram á heimavelli Álftnesinga.

Mynd : Þórir Tryggvason