[sam_zone id=1]

KA vann öðru sinni á Akureyri

Tveir leikir fóru fram í Miznuodeild kvenna í dag en í báðum tilvikum mættust liðin öðru sinni þessa helgina.

Fyrri leikur dagsins fór fram snemma í morgun en hann hófst klukkan 11 í Neskaupstað. Þar mættust Þróttur Fjarðabyggð og Álftanes en Þróttur vann viðureign liðanna í gær 3-2. Álftnesingar ætluðu aldeilis að hefna fyrir tapið og komust 0-6 yfir í upphafi fyrstu hrinu. Þessi frábæra byrjun dugði liðinu þó skammt og varð seinni hluti hrinunnar spennandi. Góður lokakafli gestanna sá til þess að þær unnu hrinuna 22-25 og náðu 0-1 forystu í leiknum.

Önnur hrina varð aldrei spennandi og vann Álftanes hana 13-25 eftir að hafa skorað 7 síðustu stigin. Enn byrjuðu gestirnir betur í þriðju hrinunni og Álftanes var skrefi á undan alla hrinuna. Þróttarar náðu að halda í við þær en allt kom fyrir ekki og Álftanes vann 21-25. Álftnesingar unnu leikinn þar með 0-3 og unnu sér því inn 4 stig þessa helgina. Þórdís Guðmundsdóttir var stigahæst hjá Álftanesi með 19 stig en Astrid Ericsson og Dýrleif Hanna Sigmundsdóttir skoruðu 13 stig hvor. Hjá Þrótti var Ester Rún Jónsdóttir stigahæst með 12 stig og Maria Eugenia Sageras skoraði 11 stig.

Álftanes og Þróttur Nes eru nú jöfn að stigum en bæði lið eru með 6 stig eftir 7 leiki. Næsti leikur Álftnesinga verður gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ þann 17. febrúar en sama kvöld mætir Þróttur Fjarðabyggð liði KA á heimavelli.

KA og Þróttur Reykjavík mættust í seinni kvennaleik dagsins en KA vann fyrri leik liðanna í gær sannfærandi, 3-0. Leikirnir fóru fram á Akureyri og þrátt fyrir 3-0 sigur í gær voru hrinurnar þó nokkuð jafnar. Fyrsta hrina í leik dagsins var einnig spennandi en KA hafði þó yfirhöndina þegar leið á hrinuna. KA vann fyrstu hrinu 25-20. Gestirnir léku vel í annarri hrinu en héldu ekki út alla hrinuna. Eftir að hafa leitt 19-17 undir lokin skoraði KA síðustu 8 stigin og vann hrinuna 25-19 með þessum magnaða viðsnúningi.

Aftur var spennan mikil í þriðju hrinu og skiptust liðin á að hafa forystuna. KA leiddi allan seinni hluta hrinunnar og vann að lokum 25-22 og tryggði sér 3-0 sigur. KA vann því báða leiki helgarinnar 3-0 þrátt fyrir jafna og spennandi leiki. Mireia Orozco skoraði 22 stig fyrir KA en Paula Del Olmo Gomez kom næst með 13 stig. Fjóla Rut Svavarsdóttir var stigahæst hjá Þrótti R með 8 stig en María Gunnarsdóttir og Nicole Hanna Johansen skoruðu 6 stig hvor.

Þessi sex stig eru gríðarlega mikilvæg fyrir KA í toppbaráttunni en liðið er nú einungis fjórum stigum á eftir liðum HK og Aftureldingar, sem hafa þó spilað sex leiki gegn sjö leikjum KA.

Eins og áður sagði mætir KA liði Þróttar Fjarðabyggð þann 17. febrúar en Þróttur Reykjavík spilar þetta sama kvöld gegn HK og fer sá leikur fram í Fagralundi.

Mynd : Egill Bjarni Friðjónsson