[sam_zone id=1]

KA vann í Neskaupstað

Það var aldeilis nóg um að vera í Mizunodeild karla í kvöld þegar fjórir leikir fóru fram.

Fyrirfram var búist við nokkuð öruggum sigrum HK og Hamars gegn Fylki og Þrótti Vogum, en HK og Hamar eru á toppi deildarinnar á meðan að Fylkir og Þróttur Vogum eru á botninum. Í Mosfellsbæ mættust Afturelding og Álftanes en í Neskaupstað mættust Þróttur Nes og KA í spennandi leik.

Leikur HK og Fylkis fór fram í Fagralundi en HK hafði unnið alla fjóra leiki sína á meðan að Fylkir leitaði enn að fyrsta sigri sínum. HK hafði mikla yfirburði í fyrstu hrinu leiksins og vann hana 25-14. Það sama átti við um aðra hrinu en í lok hennar náðu Fylkismenn að skora nokkur stig í röð og þrátt fyrir að tapa hrinunni nýttu þeir þennan meðbyr í þriðju hrinunni. Fylkir hafði mest 5 stiga forskot þegar þeir leiddu 12-17 en þá sögðu heimamenn stopp og tryggðu sér 3-0 sigur með góðum lokakafla.

Þróttur Vogum tók á móti Hamri í Vogabæjarhöllinni en fyrirfram var búist við þægilegum sigri Hamars, sem var með fullt hús stiga fyrir leikinn. Þróttur Vogum náði að stríða liði HK töluvert í síðustu umferð og því áhugavert að sjá hvernig þeim gengi gegn Hvergerðingum. Lið Hamars þurfti þó ekki að hafa mikið fyrir sigrinum og var sterkari aðilinn allt frá upphafi leiksins. Þeir sigldu sigrinum þægilega í höfn og unnu sinn fimmta sigur í röð.

Hamar og HK eru nú á toppi deildarinnar með 15 stig úr 5 leikjum. Þessi tvö lið mætast í næstu viku og verður þar um sannkallaðan toppslag að ræða. Leikurinn fer fram í Fagralundi miðvikudaginn 3. febrúar næstkomandi.

Afturelding mætti Álftanesi og lék sinn fyrsta heimaleik eftir að Nicolas Toselli kom til liðsins. Nicolas lék með Mosfellingum í 1-3 tapi liðsins í Hveragerði um helgina en bæði Afturelding og Álftanes voru með þrjú stig fyrir leikinn. Heimamenn í Aftureldingu byrjuðu leikinn frábærlega og höfðu þægilegt forskot frá upphafi fyrstu hrinu sem þeir unnu 25-19. Næstu tvær hrinur hafði Afturelding yfirhöndina framan af og stakk svo af um miðja hrinu. Seinni tveimur hrinunum lauk báðum með 25-16 sigri Mosfellinga sem unnu leikinn því 3-0.

Afturelding hefur nú unnið tvo af fjórum leikjum sínum og eru með 6 stig. Álftanes hefur unnið einn af þremur leikjum sínum og er með 3 stig eftir þessa þrjá fyrstu leiki.

Í Neskaupstað mætti Þróttur liði KA en bæði lið hafa farið nokkuð vel af stað. Þróttur Nes hefur unnið lið Fylkis tvívegis og fyrir stuttu vann KA sannfærandi sigur gegn Aftureldingu. Akureyringar byrjuðu leikinn vel og byggðu jafnt og þétt upp þægilega forystu í fyrstu hrinunni. Hana unnu þeir 16-25 og leiddu 0-1. Norðfirðingar sneru taflinu við í annarri hrinu og unnu hana 25-17 eftir frábæran kafla um miðja hrinuna. Þar skoruðu þeir 7 stig í röð og jöfnuðu þar með leikinn 1-1.

Þriðja hrinan var keimlík annarri hrinunni en að þessu sinni voru það gestirnir í liði KA sem skoruðu 7 stig í röð um miðja hrinu og unnu þeir 18-25. Loks var boðið upp á meiri spennu í fjórðu hrinu og börðust liðin allt fram að lokum. KA leiddi stærstan hluta hrinunnar en Þróttur Nes minnkaði muninn undir lokin. KA kláraði hrinuna með minnsta mun, 23-25, og náði í öll þrjú stigin með 1-3 sigri. Lið Þróttar Nes og KA eru nú með 6 stig hvort, líkt og Afturelding. KA hefur þó einungis spilað þrjá leiki á meðan að Þróttur Nes hefur spilað sex leiki.

Næstkomandi föstudag fara fram tveir leikir í Mizunodeild kvenna. Þar er um að ræða stórleik Aftureldingar og KA sem mætast í Mosfellsbæ en bæði þessi lið ætla sér stóra hluti á tímabilinu. Í hinni viðureign kvöldsins mætast Álftanes og HK á heimavelli Álftnesinga.

Á laugardag og sunnudag mætast Þróttur Neskaupstað og Þróttur Reykjavík tvívegis kvennamegin en leikirnir fara fram í Neskaupstað. Karlamegin fer einn leikur fram á laugardag og tveir á sunnudag. Þróttur Nes tekur á móti Álftanesi á laugardag og á sunnudag fer Hamar vestur á Ísafjörð og mætir þar liði Vestra. Þá kemur lið KA suður og mætir Fylki.

Úrslit dagsins

HK 3-0 Fylkir (25-14, 25-17, 25-21). Elvar Örn Halldórsson var stigahæstur hjá HK með 10 stig en næstir komu Mateusz Klóska og Andreas Hilmir Halldórsson með 8 stig hvor. Roberto Guarino skoraði 5 stig fyrir Fylki og þeir Eduard Constantin Bors og Bjarki Benediktsson bættu við fjórum stigum hvor.

Þróttur Vogum 0-3 Hamar (13-25, 17-25, 18-25). Tölfræði ekki til staðar.

Afturelding 3-0 Álftanes (25-19, 25-16, 25-16). Mason Casner var stigahæstur í liði Aftureldingar með 11 stig og Sigþór Helgason bætti við 9 stigum. Hjá Álftanesi var Ragnar Már Garðarsson stigahæstur með 10 stig og Austris Bucovskis kom næstur með 8 stig.

Þróttur Nes 1-3 KA (16-25, 25-17, 18-25, 23-25). Þórarinn Örn Jónsson var stigahæstur hjá Þrótti Nes með 23 stig en Miguel Mateo Castrillo skoraði 21 stig fyrir KA.