[sam_zone id=1]

KA vann aftur á heimavelli

KA og Þróttur Vogum mættust í kvöld á Akureyri en fyrirfram var búist við öruggum sigri heimamanna.

Lið KA byrjaði tímabilið á 3-2 sigri gegn Þrótti Fjarðabyggð og lék í kvöld sinn annan heimaleik á tímabilinu þegar Þróttur Vogum mætti norður á Akureyri. Þróttur Vogum átti afar erfitt uppdráttar í fyrsta deildarleik sínum en liðið tapaði þá gegn sterku liði Hamars.

Þróttur Vogum tók fyrst þátt í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og bíður enn eftir fyrsta sigri sínum í efstu deild. Þeir komust nokkrum sinnum nálægt sigri á síðasta tímabili og verður áhugavert að sjá hvernig þeim gengur þetta tímabilið.

KA byrjaði leikinn vel og átti ekki í miklum vandræðum  í fyrstu hrinunni. Hana unnu heimamenn 25-17 og þeir gerðu enn betur í annarri hrinu sem þeir unnu 25-15. Útlitið orðið svart fyrir gestina sem gáfust þó ekki upp.

Þriðja hrina var hin besta skemmtun og var hnífjöfn frá upphafi. Að lokum náðu gestirnir úr Vogum að kreista fram 25-27 sigur og voru því enn á lífi. Það dugði þó ekki til og KA vann 25-17 í fjórðu hrinu sem tryggði þeim 3-1 sigur.

Mynd: Þórir Tryggvason