[sam_zone id=1]

KA vann á Álftanesi

Í dag voru þrír leikir á dagskrá í Mizunodeildunum og byrjaði fjörið í kvennadeildinni.

Lið Þróttar Fjarðabyggð spiluðu sína fyrstu leiki eftir nafnabreytinguna en leikur kvennaliðs þeirra gegn Aftureldingu hófst klukkan 13. Þróttur hafði unnið tvo síðustu leiki sína, báða gegn Þrótti Reykjavík, en mætti nú sterku liði Aftureldingar sem er í 2. sæti deildarinnar.

Þróttur gerði afar vel í fyrstu hrinunni gegn Aftureldingu og hafði forystuna fyrri helming hrinunnar. Eftir miðbik hrinunnar tóku gestirnir þó forystuna og unnu 21-25 eftir spennandi lokakafla. Næstu tvær hrinur buðu ekki upp á jafn mikla spennu en Afturelding fór létt með heimakonur. Aðra hrinuna unnu þær 18-25 en eftir smá hnökra um miðja hrinu gáfu þær í undir lokin og unnu örugglega. Það sama átti við í þriðju hrinunni þar sem að Afturelding vann auðveldlega 19-25 og vann leikinn því 0-3.

Bæði lið hafa nú spilað fimm leiki, Afturelding er með 12 stig í 2. sæti deildarinnar en Þróttur með 4 stig í 4. sæti. Þróttur Reykjavík og Álftanes mætast í Mizunodeild kvenna á morgun en bæði lið eiga möguleika á að fara upp fyrir Þrótt Fjarðabyggð með sigri.

Leikirnir tveir karlamegin fóru báðir fram seinnipart dags og hófust klukkan 16. Álftanes tók á móti liði KA í Forsetahöllinni á Álftanesi. Heimamenn hafa ekki farið vel af stað en fyrir leik voru þeir í 7. sæti með þrjú stig. KA var hins vegar í 3. sætinu með 11 stig og gat með sigri þrengt að HK í 2. sæti deildarinnar. KA mætti til leiks án Filip Szewczyk sem hefur verið aðaluppspilari liðsins í mörg ár. Hann virtist verða fyrir meiðslum í síðasta leik liðsins og ferðaðist ekki suður til Reykjavíkur með liðinu.

André Collins tók að sér stöðu uppspilara hjá KA sem tók öll völd á vellinum í upphafi fyrstu hrinu. KA leiddi allt frá upphafi og þrátt fyrir að Álftanes hafi lagað stöðuna undir lokin vann KA hrinuna 22-25. Álftnesingar byrjuðu mun betur í næstu hrinu og var hrinan jafnari en sú fyrsta. Forystan sveiflaðist aðeins til en KA hafði iðulega naumt forskot. Þetta breyttist ekki þegar leið á hrinuna og vann KA 21-25 og tók því 0-2 forystu í leiknum.

Þriðja hrinan var lík hrinu tvö en Álftanes elti allt frá byrjun. KA náði þó ansi þægilegu forskoti um miðja hrinu og Álftanes gerði mörg mistök og átti ekki mikla möguleika undir lokin. KA vann hrinuna 21-25 og leikinn þar með 0-3. KA er því með 14 stig í 3. sæti deildarinnar, einungis einu stigi á eftir HK. Bæði lið hafa spilað 6 leiki. Álftanes er enn í 7. sætinu og mætir næst toppliði Hamars þann 10. febrúar. KA mætir Fylki þann 19. febrúar og fær því dágóða pásu næstu daga.

Karlalið Þróttar Fjarðabyggð átti heimaleik, líkt og kvennaliðið, en þeir mættu Þrótti Vogum sem höfðu enn ekki unnið hrinu í Mizunodeildinni. Piotr Kempisty, spilandi þjálfari Þróttar úr Vogum, lék ekki með liði sínu í dag og áttu gestirnir afar erfitt uppdráttar allan leikinn. Í fyrstu hrinu náði Þróttur Fjarðabyggð strax í þægilegt forskot og varð munurinn mestur 13 stig. Þrátt fyrir að gestirnir hafi skorað 8 stig í röð undir lok hrinunnar vann Þróttur Fjarðabyggð 25-15.

Þróttur Fjarðabyggð kom inn í aðra hrinu af sama krafti og náði fljótlega að byggja upp gott forskot. Gestirnir áttu fínan kafla um miðja hrinuna og minnkuðu muninn í 4 stig en nær komust þeir ekki. Þróttur Fjarðabyggð vann 25-19 og leiddi 2-0. Þriðja hrinan var einungis formsatriði fyrir heimamenn sem unnu hana 25-12 og unnu leikinn því örugglega 3-0. Þróttur Fjarðabyggð sat í 3. sæti deildarinnar í nokkrar mínútur og er nú með 12 stig eftir 8 leiki. Þar sem að KA vann sinn leik tóku þeir 3. sætið þó aftur.

Á morgun, sunnudag, fer einn leikur fram í Mizunodeild karla þar sem að HK og Vestri mætast í Fagralundi. HK tapaði sínum fyrsta leik síðastliðinn miðvikudag þegar Hamar vann 0-3 útisigur í Fagralundi. Vestri vann hins vegar 0-3 sigur gegn Fylki á föstudagskvöld og verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Kópavoginum á morgun.

Úrslit dagsins

Mizunodeild kvenna

Þróttur Fjarðabyggð 0-3 Afturelding (21-25, 18-25, 19-25). Ester Rún Jónsdóttir skoraði 12 stig fyrir Þrótt og Maria Jimenez Gallego kom næst með 10 stig. María Rún Karlsdóttir skoraði 16 stig fyrir Aftureldingu og Steinunn Guðbrandsdóttir bætti við 9 stigum.

Mizunodeild karla

Álftanes 0-3 KA (22-25, 21-25, 21-25).

Þróttur Fjarðabyggð 3-0 Þróttur Vogum (25-15, 25-19, 25-12). Þórarinn Örn Jónsson var stigahæstur í heimaliðinu með 12 stig og Andri Snær Sigurjónsson skoraði 11 stig. Damian Moszyk skoraði 16 stig fyrir Þrótt Vogum og Gniewomir Mastalerek skoraði 7 stig.

Mynd : Þórir Tryggvason