[sam_zone id=1]

KA tryggði sér oddaleik eftir sigur í oddahrinu.

HK og KA mættust í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í ár. HK leiddi einvígið 2-1 og gat tryggt sér titilinn með sigri á heimvelli sínum í Fagralundi.

HK byrjaði fyrstu hrinuna mjög vel og náði fljótt góðri forystu í byrjun hrinunnar. HK voru mjög ákveðnir og var virkilega gaman að fylgjast með þeim í byrjun leiks. HK leiddu alla hrinuna og voru komnir í góða stöðu í 24-20. Mason Casner fór þá í uppgjöf og skoraði Mason meðal annars tvö stig beint úr uppgjöf og jafnaði KA leikinn í 24-24. HK stóð hinsvegar af sér storminn og Theódór lokaði hrinunni fyrir HK, 26-24 sigur hjá HK.

KA menn ætluðu hinsvegar ekki að gefast upp og þeir voru búnir að stilla hávörnina hjá sér fyrir aðra hrinuna. Theódór sem hafði farið mikinn í fyrstu hrinunni lenti í erfiðleikum með hávörn KA eins og aðrir leikmenn liðsins. KA voru með yfirhöndina allan tímann og unnu hrinuna nokkuð örugglega 19-25 og jöfnuðu þar með leikinn.

HK-ingar byrjuðu þriðju hrinuna af krafti, og var sami kraftur í liðinu og hafði verið í fyrstu hrinunni. HK virtist vera búnir að leysa hávörnina hjá KA og slógu þeir hvað eftir annað í hávörnina og út. KA náðu sér hinsvegar aldrei á strik í hrinunni og var HK alltaf með forystu í hrinunni. KA minnkaði muninn í 21-19 en nær komust þeir ekki og HK sigraði hrinuna 25-22 og þurftu því einungis að vinna eina hrinu í viðbót til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

KA var með yfirhöndina í fjórðu hrinunni og leiddu nánast alla hrinuna. HK var þó aldrei langt undan og gekk KA illa að slíta sig frá HK-ingum. Það sáust frábær tilþrif í þessari hrinu bæði í vörn og sókn og ljóst að enginn ætlaði að gefa neitt eftir. KA voru þó sterkari á lokasprettinum og unnu hrinuna 25-22 og tryggðu sér þar með oddahrinu.

KA byrjaði oddahrinuna af miklum krafti og skoraði fjögur fyrstu stig hrinunnar. HK voru þó ekki lengi að minnka muninn og var staðan orðin 5-4 KA í vil eftir smá stund. KA voru þó komnir með blóð á tennurnar og þeir héldu áfram að þjarma að HK. KA menn skoruðu síðustu stig hrinunnar og tryggðu sér 15-10 sigur í hrinunni og fullkomnuðu þar með endurkomu sína í þessum leik.

Miguel Mateo leikmaður KA var sem fyrr atkvæðamestur á vellinum en hann skoraði 30 stig í leiknum og átti frábæran leik í dag. Hjá HK var það síðan Theódór Óskar sem skoraði 22 stig.

Það er því ljóst að úrslitin munu ráðast í oddaleik á Akureyri en sá leikur fer fram eftir páskahelgina á þriðjudaginn næstkomandi og fá liðin því smá pásu núna áður en úrslitin ráðast endanlega.

Það er einnig vert að taka það fram að það var frábær umgjörð og stemmning í Fagralundi í dag og létu áhorfendur beggja liða vel í sér heyra allan leikinn og eiga einnig hrós skilið eins og bæði lið sem léku frábært blak í dag.

Nánari tölfræði úr leiknum má sjá hér.