[sam_zone id=1]

KA slapp með skrekkinn á Akureyri

Það fór einn leikur fram í Mizunodeild karla í kvöld en lið Fylkis sótti KA heim á Akureyri.

Ekki hefur farið mikið fyrir liði KA það sem af er tímabili en þeir eru þó í þriðja sæti deildarinnar og eiga leiki til góða miðað við liðin í kringum sig í stöðutöflunni. Fylkir hefur átt erfitt uppdráttar og leitar enn að sínum fyrsta sigri. Leikur kvöldsins var þó afar skemmtilegur til að byrja með og var fyrsta hrinan æsispennandi. Fylkir hafði yfirleitt nauma forystu en liðin skiptust á stigum allt fram að lokum hrinunnar. Akureyringar voru sterkari undir lokin og unnu 25-22.

KA lék mun betur í annarri hrinu og átti Fylkir sömuleiðis í vandræðum. KA vann þægilegan sigur í hrinunni, 25-17, og leiddi 2-0. Spennan var aftur til staðar í þriðju hrinunni en KA var skrefinu á undan. Fylkir náði að jafna leikinn undir lokin og tók forystuna, 24-25. Síðustu stig hrinunnar voru stórskemmtileg og að lokum vann Fylkir ótrúlegan 24-26 sigur.

Fjórða hrinan var einnig afar jöfn og skemmtileg. Liðin skiptust á stigum og Fylkismenn voru staðráðnir í að ná sér í oddahrinu. Jafnt var 20-20 en þá kom góður kafli hjá KA. Miguel Mateo Castrillo, sem hafði hvílt í þriðju og fjórðu hrinu, kom inn á völlinn með krafti og treysti KA mikið á Mateo undir lokin. Það dugði þó ekki til og Fylkir vann hrinuna 24-26. Þar með tryggði lið Fylkis sér sitt fyrsta stig á tímabilinu og átti möguleika á sínum fyrsta sigri.

KA byrjaði vel í oddahrinunni og leiddi 4-1. Þá vöknuðu gestirnir til lífsins og léku frábærlega á meðan að KA gerði mörg mistök. Fylkir leiddi 6-12 þegar KA tók leikhlé og í kjölfarið skoruðu heimamenn þrjú stig í röð og hleyptu lífi í leikinn aftur. Komið var að Fylki að taka leikhlé í stöðunni 11-13 en Fylkir átti erfitt uppdráttar í sókninni. KA jafnaði 13-13 og Fylkir tók sitt seinna leikhlé þegar KA tók 14-13 forystu. Síðasta stig leiksins var æsispennandi en KA vann 15-13 og vann leikinn því 3-2. Fylkir þarf því að bíða lengur eftir fyrsta sigrinum í Mizunodeildinni.

Stigahæstur í liði KA var Miguel Mateo Castrillo með 22 stig en Alexander Arnar Þórisson og Oscar Fernández Celis bættu við 14 stigum hvor. Hjá Fylki var Bjarki Benediktsson stigahæstur með 14 stig og Eduard Constantin Bors kom næstur með 13 stig.

Eftir leikinn er KA með 16 stig eftir 7 leiki og er í 3. sæti deildarinnar. Fylkir er í 8. sæti deildarinnar með eitt stig eftir 8 leiki. Næsti leikur KA verður heimaleikur gegn HK þann 24. febrúar næstkomandi en Fylkir mætir Hamri á mánudag. Sá leikur fer fram í Árbænum á heimavelli Fylkis.