[sam_zone id=1]

KA og HK sigurvegarar í ofurbikarnum

Ofurbikarinn fór fram á Akureyri um helgina en þetta er í fyrsta sinn sem ofurbikarinn fer fram. Mótið í ár var haldið af blakdeild KA og fór fram í frábærri umgjörð bæði í KA-heimilinu og Íþróttahöllinni.

Úrslitaleikirnir fóru fram í dag og í kvennaflokki voru það Afturelding og HK sem mættust. Leikurinn var hin besta skemmtun en það voru hinsvegar Afturelding sem byrjuðu leikinn betur og unnu fyrstu hrinu eftir upphækkun 26-24. HK stúlkur vöknuðu hinsvegar við þetta og unnu næstu þrjár hrinur (18-25, 18-25, 19-25) og unnu þar með leikinn 3-1.
HK eru því ofurbikarmeistarar kvenna árið 2020 og óskum við þeim til hamingju með það.

Karlameginn voru það heimamenn í KA sem tóku á móti Aftureldingu. KA menn byrjuðu leikinn betur og komust 2-0 yfir í hrinum eftir tvær jafnar hrinur sem enduðu 25-23 og 25-22. Afturelding tóku þá hinsvegar við sér og sýndu úr hverju þeir eru gerðir, þeir unnu næstu tvær hrinur 25-22 og 25-18 og ljóst að úrslitin myndu ráðast í oddahrinu.
Þar voru það heimamenn í KA sem höfðu yfirhöndina og unnu oddahrinuna 15-12 og þar með ofurbikarinn þetta árið.
Blakfréttir óska þeim einnig til hamingju með þann áfanga.

Fyrr í dag var svo leikið um þriðja sætið, en hjá körlunum unnu HK öruggan 3-0 (25-22, 25-16, 25-22) sigur á Þrótti Nes og fara heim með brons. Hjá konunum mættust síðan KA og Þróttur Nes og þar voru það KA konur sem höfðu betur 3-1 (26-24, 25-21, 24-26, 25-16) og ná þær því í bronsið í ár.