[sam_zone id=1]

KA Íslandsmeistari kvenna 2019

KA fékk í kvöld HK í heimsókn í oddaleik í Íslandsmóti kvenna. KA unnu fyrstu tvo leikina en HK tryggðu sér oddaleik með því að vinna næstu tvo. KA voru fyrir leikinn Deildar- og Bikarmeistarar og freistuðu þess að bæta síðasta titlinum í safnið.

KA hófu leikinn af miklum krafti og komust 6-2 yfir. HK minnkuðu muninn fljótt og komust að lokum 10-11 yfir. KA sigldu hins vegar aftur fram úr með sterku spili og þökk sé fjölda mistaka HK. KA unnu fyrstu hrinuna 25-18.

KA voru aftur sterkari í upphafi annarrar hrinu og skoruðu þær fyrstu fjögur stigin. Líkt og í fyrstu hrinunni minnkuðu HK muninn og komust yfir í stöðunni 10-11. Þá tók við góður kafli hjá KA sem skoruðu 10 af næstu 12 stigum og komust þannig í afgerandi forystu. KA unnu aðra hrinuna 25-17 og þurftu því aðeins að vinna eina hrinu til viðbótar til að verða Íslandsmeistarar.

Aftur hófu KA þriðju hrinuna af miklum krafti og komust þær 10-2 yfir. Þrátt fyrir að HK hafi tekist að minnka muninn örlítið héldu KA forystunni til loka hrinunnar. Birna Baldursdóttir tryggði KA Íslandsmeistaratitilinn með sókn af miðjunni og unnu þær hrinuna 25-19 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæsti leikmaður KA í kvöld var Birna Baldursdóttir með 15 stig og hjá HK var Hjördís Eiríksdóttir stigahæst með 11 stig.

Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill KA í kvennaflokki og eru þær þar með Deildar-, Bikar- og Íslandsmeistarar.