[sam_zone id=1]

KA Íslandsmeistarar árið 2019

KA og HK mættust í hreinum úrslitaleik um íslandsmeistaratitilinn í blaki í kvöld. Bæði lið höfðu unnið tvo leiki hvort, síðustu tveir leikir höfðu farið í fimm hrinur og því var búist við spennandi leik í kvöld.

HK menn byrjuðu betur og komust í 4-1 en KA menn voru ekki lengi að jafna sig og skoruðu næstu 6 stig og breyttu stöðunni í 7-4. KA menn voru betri en náðu ekki að slíta HK menn alveg frá sér. HK gáfust ekki upp en náðu þó ekki að komast nær en tvö stig en staðan var 23-21 KA í vil í lok hrinunar en nær komust HK ekki og KA unnu hrinuna 25-21. Stærsti munurinn var að móttaka KA manna var mun betri en í síðasta leik og gekk sóknarleikurinn því mun betur hjá þeim.

KA byrjuðu aðra hrinuna betur en eins og í fyrstu hrinunni gekk þeim illa að slíta HK menn frá sér en fram á miðja hrinu munaði alltaf um 2-3 stigum. HK menn gáfu þó í um miðja hrinu og náðu að jafna í stöðunni 14-14, HK stoppuðu ekki þar og tóku forystuna og voru yfir 18-15. KA reyndu hvað þeir gátu til að brúa bilið og fengu nokkur tækifæri til að jafna leikinn en gerðu það ekki, HK spiluðu vel og Theodór kláraði hrinuna með stigi beint úr uppgjöf og HK unnu 25-22.

HK menn nýttu sér meðbyrinn úr annari hrinunni og byrjuðu þriðju hrinuna af krafti, allt liðið barðist vel í vörn sem skilaði nokkrum góðum stigum. HK leiddi 12-9 um miðja hrinu, KA menn gáfust þó ekki upp og jöfnuðu leikinn 12-12. Liðin skiptust síðan á að hafa forustuna þangað til Stefano Hidalgo fór í uppgjöf hjá KA mönnum en HK menn réðu illa við sterkar uppgjafir hans og komust KA menn í 21-15. HK menn reyndu hvað þeir gátu að komast aftur inní hrinuna en munurinn var of mikill og KA menn sigldu þessu nokkuð örugglega í höfn. Það var svo áður nefndur Stefano sem blokkaði Andreas til að tryggja sigurinn 25-20.

HK menn byrjuðu fjórðu hrinuna betur og voru alltaf með smá forskot en KA menn voru aldrei langt undan, HK komst samt þremur stigum yfir 15-12 um miðja hrinu. HK menn voru komnir með blóð á tennurnar og héldu þessari forystu út hrinuna og unnu hana 25-20 en það skipti sköpum fyrir HK menn í þessari hrinu var að Theodór átti stórleik í sókninni og gátu KA menn ekki stoppað hann í þessari hrinu. Það þýddi að úrslitin myndu ráðast í oddahrinu.

Oddahrinan var jöfn til að byrja með og skiptust liðin á að skora og hafa forystuna, KA menn náðu þó undirtökunum um miðja hrinu og sneru liðin í stöðunni 8-6. Það var allt á suðupunkti í húsinu og nýttu KA menn sér heimavöllinn og stemmninguna og komust í 11-7, þeir héldu svo út þrátt fyrir hetjulegar tilraunir HK manna. Það var svo besti maður vallarins Stefano Hidalgo sem að sló síðasta boltann í gólf og tryggði KA mönnum íslandsmeistaratitilinn.

Gríðarlega svekkjandi tap fyrir HK menn en þeir geta verið mjög stoltir af sinni frammistöðu enda gerðu þeir þetta að frábæru einvígi og eiga mikið hrós skilið fyrir það. Það er samt ljóst að KA menn eru besta lið landsins, þeir fylgdu í fótspor kvennaliðsins og unnu alla þrjá titlana. Þeir eru búnir að vera besta lið landsins í vetur og áttu þennan titil fyllilega skilið.

Við óskum blakdeild KA til hamingju með ótrúlegan vetur með að vinna alla 6 titlana sem eru í boði. Það hefur aldrei verið gert áður og er auðvitað stórkostlegur árangur.