[sam_zone id=1]

KA í úrslit eftir sigur á HK

HK og KA mættust öðru sinni í undanúrslitaeinvígi sínu í kvöld en leikið var í Fagralundi.

KA hafði betur í fyrri leik liðanna sem fór fram á Akureyri síðastliðinn sunnudag. Þar vann KA 3-1 sigur en Akureyringar hafa verið erfiðir viðureignar á heimavelli sínum. HK vann hins vegar síðasta deildarleik liðanna í Fagralundi og því fróðlegt að sjá hvort þeim tækist að knýja fram gullhrinu í kvöld.

KA byrjaði leikinn af miklum krafti og gáfu HK aldrei færi á að komast inní leikinn, þrátt fyrir að HK hafi gert sitt besta til að vinna niður stórt forskot KA þá reyndist það ekki nóg. Gífurlega góð byrjun KA skilaði þeim sigri í fyrstu hrinu 25-20.

Spennustigið virtist ætla að taka stórt skref uppá við í annarri hrinu og fór hún vel af stað. KA hélt þó forskoti til að byrja með og voru svo snöggir að slökkva í heimamönnum sem áttu fá svör við öflugum sóknarleik KA. HK klóraði aðeins í bakkann en líkt og í fyrstu hrinu þá reyndist það ekki nóg, KA kláraði hrinuna 25-19 og komu sér í ansi góða stöðu.

HK fór vel af stað í þriðju hrinu og virtust KA menn láta dómgæsluna trufla sig en það voru vafalaust nokkrir boltar sem voru ekki að falla með þeim. HK urðu hinsvegar kærulausir og nýttu KA sér það og komu sér inní hrinuna. Lokakaflinn var hrikalega spennandi en að lokum voru það HK sem höfðu betur 25-23.

Fjórða hrinan var æsispennandi út í gegn og skiptust liðin á góðum sóknum, eftir jafna og spennandi hrinu voru það hinsvegar KA sem höfðu betur 25-23 og sigra því leikinn 3-1.

Stigahæstur í leiknum var Mateo Castrillo leikmaður KA með 18 stig. Stigahæstur í liði HK var Mateusz Klóska með 13 stig.

KA mætir liði Hamars í úrslitaeinvíginu en Hamar vann fyrr í kvöld 3-1 sigur í undanúrslitaeinvígi sínu. Úrslitin hefjast næsta sunnudag, þann 23. maí. Vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.