[sam_zone id=1]

KA hefndi fyrir bikartapið

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í dag en í Fagralundi mættust HK og KA, einungis viku eftir úrslitaleik Kjörísbikarsins.

Afturelding – Þróttur Fjarðabyggð

Í Mosfellsbæ mættust Afturelding og Þróttur Fjarðabyggð en þessi sömu lið mættust einnig í gær. Þar fór Afturelding með þægilegan 3-0 sigur og þurfti Þróttur að gera mun betur til að eiga möguleika á sigri í dag. Ekki fóru gestirnir þó vel af stað en Afturelding tók 7-1 forystu í fyrstu hrinu og virtist ætla að valta yfir Þróttara. Norðfirðingar tóku það hins vegar ekki í mál og var seinni hluti hrinunnar afar jafn. Þróttur náði að vinna hrinuna 22-25 með 2-8 kafla undir lokin og leiddi því óvænt, 0-1.

Önnur hrinan byrjaði eins og sú fyrsta þar sem Afturelding var mun betra liðið á vellinum en í þetta skiptið hélt Afturelding í forystuna. Mosfellingar áttu ekki í neinum vandræðum og unnu auðveldan 25-9 sigur til að jafna leikinn 1-1. Það sama átti við í þriðju hrinunni og leiddi Afturelding 8-0 til að byrja með. Afturelding gaf ekkert eftir og vann 25-7 í þriðju hrinunni.

Fyrsta hrinan var sú eina sem Þróttur veitti Aftureldingu einhverja mótspyrnu en fjórðu hrinunni lauk með 25-12 sigri heimakvenna. Afturelding vann leikinn því 3-1 og tók öll þrjú stigin.

Afturelding er nú með 26 stig eftir 11 leiki og er pakkinn á toppi deildarinnar orðinn ansi þéttur. Eftir leik dagsins í Kópavoginum er HK með 25 stig eftir 10 leiki en KA með 22 stig eftir 11 leiki. Öll þrjú eru því í hörkubaráttu um deildarneistaratitilinn.

HK – KA

Þessi sömu lið mættust í úrslitaleik Kjörísbikarsins síðasta sunnudag en þar vann HK sannfærandi 3-0 sigur. Bæði lið eru í baráttu við Aftureldingu við topp Mizunodeildar kvenna og leikurinn því afar mikilvægur fyrir bæði HK og KA.

HK fór vel af stað og hafði þægilegt forskot strax um miðja fyrstu hrinuna. KA átti í vandræðum í móttöku en dæmið snerist við undir lok hrinunnar. KA leiddi 19-21 og 22-23 en náði ekki að klára hrinuna. HK vann 25-23 og leiddi 1-0.

KA gerði enn betur í annarri hrinu og var skrefi á undan HK-ingum. Gestirnir unnu sannfærandi 20-25 sigur í hrinunni með góðum lokakafla og var leikurinn orðinn jafn aftur. Þriðja hrina var frábær skemmtun og voru fjölmargar spennandi skorpur þar sem bæði lið gerðu vel.

HK var skrefinu á undan en spennan var mikil alla þriðju hrinuna. HK var sterkari aðilinn undir lokin og vann 25-19 sigur.

KA hafði nokkra yfirburði í fjórðu hrinunni og í hvert skipti sem HK minnkaði muninn kom góður kafli hjá KA í kjölfarið. Emil Gunnarsson, þjálfari HK, gerði fjölmargar skiptingar í hrinunni en allt kom fyrir ekki. KA vann öruggan sigur, 16-25, og náði að knýja fram oddahrinu.

Matthildur Einarsdóttir, uppspilari HK, varð fyrir því óláni að meiðast undir lok fjórpu hrinunnar en Rósa Dögg Ægisdóttir tók stað hennar og lék oddahrinuna fyrir HK.

KA lék frábærlega í oddahrinunni og eins gekk illa hjá HK. KA leiddi 0-6 og reyndist það of mikið fyrir HK. KA vann hrinuna 6-15 og leikinn þar með 2-3.

Stigahæst í liði HK var Sara Ósk Stefánsdóttir með 11 stig en Hjördís Eiríksdóttir skoraði 10 stig. Hjá KA var Paula Del Olmo Gomez með 26 stig og Mireia Orozco skoraði 17 stig.