[sam_zone id=1]

KA hafði betur gegn Aftureldingu í æsispennandi leik

Síðari leikur kvöldsins í Mizunodeild karla var viðureign KA og Aftureldingar en leikurinn fór fram á Akureyri.

Leikurinn fór jafnt af stað en liðin skiptu með sér stigum í byrjun leiks. Gestirnir frá Mosfellsbæ tóku hinsvegar yfirhöndina um miðja hrinu og réðu KA illa við öflugan sóknarleik Aftureldingar. Afturelding fór með sigur í fyrstu hrinu 25-19, Bjarki Sveinsson var atkvæðamestur í liði Aftureldingar með 5 stig. KA mættu grimmari til leiks í annarri hrinu og náðu fljótt forustu. KA hélt góðri forustu megnið af hrinunni og gekk gestunum illa að koma sér inní leikinn. Afturelding gerði hinsvegar tvöfalda breytingu undir miðja hrinu og virtist það skila sér því að eftir að hafa verið mest 7 stigum á eftir KA náði Afturelding að jafna 16-16. KA sýndu hinsvegar styrk sinn og náðu sigri í annarri hrinu 25-21 með flottu stigi frá þjálfara liðsins, André Collins sem skoraði sitt níunda stig í leiknum.

KA gerðu áhugaverða skiptingu í þriðju hrinu en uppspilari liðsins Filip Szewczyk fór á bekkinn og inn kom Draupnir Jarl Kristjánsson, efnilegur uppspilari fæddur árið 2002. Það tók KA menn nokkur stig að stilla sig eftir þessa breytingu en KA lenti strax 4-0 undir. Heimamenn voru þó fljótir að jafna 4-4 eftir góðan kafla. Hrinan var heilt yfir nokkuð jöfn en undir lokinn skelltu KA í lás og tóku síðustu 6 stig hrinunnar sem endaði 25-18 og KA því komnir yfir 2-1.

Afturelding var með töluverða yfirburði í fjórðu hrinu sem einkenndist af skrautlegum sóknar og varnaleik beggja liða en Afturelding sigraði hrinuna 25-16 og tryggði sér þar með oddahrinu.

Ekki vantaði spennuna í oddahrinuna en staðan var 8-7 fyrir KA þegar liðin skiptu um vallarhelming. KA reyndust sterkari undir lokinn en eftir æsispennandi hrinu sigraði KA 15-11. Dramatík í lokastiginu en Afturelding virtist hafa skorað stig með snertingu í hávörn KA en dómarar leiksins dæmdu hinsvegar KA stigið við litla hrifningu Nicolas Toselli leikmanns Aftureldingar sem mótmælti af hörku og uppskar rautt spjald fyrir. KA menn fengu því ódýrt lokastig í leiknum og tryggðu sér 3-2 sigur.

KA eru eftir leikinn komnir með 11 stig í 3. sæti Mizunodeildar karla en Afturelding situr í 5.sæti með 7 stig.