[sam_zone id=1]

Jóna og Ævarr eru blakfólk ársins 2020

Blaksamband Íslands tilkynnti í hádeginu um útnefningar á blakfólki ársins 2020.

BLÍ tilkynnti valið á blakfólki ársins í dag og urðu þau Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson fyrir valinu. Vegna sóttvarna var fundur BLÍ í fjarskiptaformi að þessu sinni en bæði Jóna og Ævarr tóku þátt í fundinum og ræddu stuttlega við Sævar Má, framkvæmdastjóra BLÍ.

Blakkona ársins 2020 – Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir – Jóna Guðlaug hefur verið einn albesti íslenski blakarinn undanfarin ár og leikið erlendis stærstan hluta ferilsins. Þetta er í fimmta skipti sem Jóna er valin blakkona ársins hjá BLÍ. Síðustu tvö tímabil hefur Jóna leikið með liði Hylte/Halmstad í Svíþjóð en á síðasta tímabili fékk liðið bronsverðlaun í deildarkeppni. Á yfirstandandi tímabili er hefur liðið haft mikla yfirburði og hefur unnið alla tíu leiki sína án þess að tapa hrinu.

Jóna Guðlaug hefur lengi verið fastamaður í kvennalandsliði Íslands en hún er í öðru sæti yfir leikjahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi með 84 landsleiki. Hún komst ekki með liðinu á Novotel Cup vegna meiðsla og verður spennandi að sjá Jónu með liðinu þegar næstu verkefni fara af stað.

Blakmaður ársins 2020 – Ævarr Freyr Birgisson

Ævarr Freyr leikur með liði Marienlyst í dönsku úrvalsdeildinni og hefur gert það síðan haustið 2018. Ævarr er kantsmassari en er einnig öflugur frelsingi. Á síðasta tímabili lék Ævarr flesta leiki Marienlyst en einungis einn leikmaður liðsins lék fleiri hrinur en Ævarr. Lið Marienlyst endaði í 4. sæti dönsku deildarkeppninnar og gerði frábæra hluti í bikarkeppninni þegar liðið vann til silfurverðlauna. Ævarr var einnig valinn blakmaður ársins 2019.

Ævarr hefur verið fastamaður í karlalandsliði Íslands undanfarin ár og lék með liðinu á Novotel Cup í byrjun árs 2020. Þar fór Ævarr á kostum og skoraði meðal annars 28 stig í sigurleik liðsins gegn Skotlandi. Ævarr Freyr hefur leikið alls 37 leiki fyrir karlalandsliðið og verða þeir eflaust mun fleiri á komandi árum.