[sam_zone id=1]

Jafntefli í Bliesen

Lið Bliesen mætti Freiburg í þýska blakinu í kvöld en leiknum lauk á furðulegum nótum.

Máni Matthíasson og félagar hans í Bliesen hafa átt erfitt uppdráttar á tímabilinu og sitja í næstneðsta sæti suðurriðils 2. deildarinnar í Þýskalandi. Ekki byrjaði leikur kvöldsins heldur vel fyrir heimamenn í Bliesen en gestirnir frá Freiburg voru mun sterkari í fyrstu hrinunni. Þeir höfðu öruggt forskot stærstan hluta hrinunnar og unnu 18-25. Bliesen svaraði vel fyrir sig og leiddi í annarri hrinu en spennan var mikil undir lokin. Bliesen kreisti fram 28-26 sigur og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrina leiksins var hnífjöfn framan af en ótrúleg uppákoma stöðvaði leikinn í stöðunni 13-13. Steven Tarquinio, miðjumaður Bliesen, stökk þá í hávörn og tókst honum að brjóta hluta úr gólfi íþróttahússins við lendinguna. Þar brotnaði lok sem staðsett var á miðlínunni undir netinu og náðist ekki að gera við það. Leiknum var því lokið þar sem holan var ansi fyrirferðamikil og gerði Bliesen líklega sitt fyrsta jafntefli.

Næstu helgi spilar Bliesen tvo heimaleiki en á laugardag fá þeir botnlið Friedrichshafen 2 í heimsókn. Á sunnudag mæta þeir svo sterku liði Mimmenhausen og eru líkurnar á sigri því töluvert meiri á laugardag.