[sam_zone id=1]

Jafnt í undanúrslitum hjá Marienlyst

Eftir tap hjá íslendingaliðinu Boldklubben Marienlyst í fyrsta leik undanúrslitanna gegn Middelfart VK, jöfnuðu þeir rimmuna með frábærum sigri í gærkvöldi.

Marienlyst áttu erfitt uppdráttar í upphafi leiks þar sem Irvan Brar fór fyrir liði Middelfart með gríðarlega sterkum uppgjöfum. Marienlyst minnkuðu hægt og rólega muninn og komust loks yfir í stöðunni 18-17. Þeir hleyptu Middelfart aftur fram úr sér en eftir mikla spennu unnu Marienlyst hrinuna eftir upphækkun, 28-26.

Middelfart skoruðu fyrstu þrjú stig annarrar hrinunnar og virtust Marienlyst vera örlítið yfirspenntir eftir sigurinn í fyrstu hrinunni. Það varði þó ekki lengi og komust þeir fljótt yfir. Marienlyst sigldu þægilegum 25-20 sigri í höfn í annarri hrinunni og komnir í lykilstöðu.

Aftur voru Middelfart sterkari í upphafi þriðju hrinunnar og komust meðal annars 3-6 yfir. Líkt og í fyrstu tveimur hrinunum þurftu Marienlyst nokkur stig til að vakna en þegar þeir gerðu það, þá sigldu þeir fram úr og unnu hrinuna nokkuð þægilega, 25-21 og leikinn þar með 3-0. Undir lok þriðju hrinunnar þurfti besti leikmaður Middelfart og einn allra besti leikmaður deildarinnar, Irvan Brar, að yfirgefa völlinn meiddur og er óljóst hvort hann geti leikið næsta leik.

Galdur Máni Davíðsson kom ekki við sögu í þessum leik en Ævarr Freyr Birgisson átti flottan leik. Hann skoraði 12 stig og var með 66% jákvæða móttöku og 67% sóknarnýtingu.

Næsti leikur liðanna fer fram í Middelfart á morgun, laugardag, en það þarf að vinna þrjá leiki til að komast í úrslit.