[sam_zone id=1]

Ítalir Evrópumeistarar

Lokaleikir Evrópumóts karla fóru fram í dag en rétt í þessu voru Evrópumeistarar ársins 2021 krýndir.

Í úrslitaleiknum mættust lið Slóveníu og Ítalíu eftir að þau höfðu unnið frábæra sigra gegn stórliðum Póllands og Serbíu. Fyrsti leikur dagsins var einmitt bronsleikur Póllands og Serbíu en fyrsta hrinan var æsispennandi. Pólland vann hana 25-22 og fylgdi því eftir með auðveldum 25-16 sigri í annarri hrinu. Þeir kláruðu svo leikinn með því að vinna þriðju hrinu 25-22 og náðu í bronsverðlaun á mótinu.

Úrslitaleikurinn sjálfur hófst svo skömmu eftir að bronsleiknum lauk en þar byrjuðu Slóvenar mun betur. Þeir leiddu allt frá upphafi fyrstu hrinu og unnu hana 25-22. Ítalir gerðu mun betur í annarri hrinu sem var þó einnig jöfn. Hana unnu Ítalir 20-25 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Í þriðju hrinu skiptust liðin á að skora allt þar til í stöðunni 20-20. Þá fór Toncek Stern á kostum í uppgjafarreitnum og Slóvenía vann 25-20 sigur með frábærum lokakafla. Fjórða hrina var hnífjöfn framan af en um miðja hrinuna seig ítalska liðið fram úr. Slóvenía náði að minnka muninn í aðeins eitt stig undir lokin en það dugði ekki til og Ítalía knúði fram oddahrinu með 20-25 sigri.

Spennan var ekki minni í oddahrinunni en Ítalía lék stórkostlega seinni hluta hrinunnar. Ítalía vann 11-15 sigur í oddahrinunni og er Evrópumeistari í bæði karla- og kvennaflokki árið 2021.

Úrslit dagsins

Pólland 3-0 Serbía (25-22, 25-16, 25-22). Wilfredo Leon skoraði 14 stig fyrir Pólland og Bartosz Kurek skoraði 11 stig. Í liði Serbíu var Marko Ivovic stigahæstur með 10 stig en næstur kom Aleksandar Atanasijevic með 9 stig.

Slóvenía 2-3 Ítalía (25-22, 20-25, 25-20, 11-15). Alen Pajenk var stigahæstur í liði Slóveníu með 16 stig en Toncek Stern og Klemen Cebulj skoruðu 14 stig hvor. Daniele Lavia skoraði 21 stig fyrir Ítalíu og Alessandro Michieletto bætti við 17 stigum.